Íslenski boltinn

Kári Ársæls: Alltaf gaman þegar það er hiti í mönnum

Kári Ársælsson.
Kári Ársælsson. Mynd/Stefán


Kári Ársælsson fyrirliði Breiðabliks var að spila vel í vörn Breiðabliks í kvöld og var mjög sáttur að leik loknum.

"HK eru með gott lið og spila svipaðan fótbolta og við. Þeir halda boltanum vel innan liðsins en ég bjóst við meiri baráttu frá þeim ef ég á að vera hreinskilinn," sagði Kári sem viðurkennir að Blikar hafi legið svolítið aftarlega á köflum í seinni hálfleik.

"Það var smá deyfð yfir okkur og í raun þeim líka fannst mér, ég bjóst við þeim brjálaðari. Með smá heppni hefðu þeir getað klafsað inn einu, en sem betur fer gerðist það ekki."

Viðureignir HK og Breiðabliks eru oft nokkuð athyglisverðar enda tvö lið úr sama bæjarfélaginu. Í fyrri hálfleik þurfti að skilja af nokkra stuðningsmenn liðanna og var hreinlega slegist í stúkunni eftir að Guðmundur Pétursson skoraði og mætti lögreglan á vettvang. Eftir það voru gæslumenn í gulum vestum settir á milli stuðningsmannahópanna sem voru staðsettir í gömlu stúkunni.

"Já ég heyrði að það hefði veirð hiti í mönnum, þetta er bara blóð, sviti og tár en ég vona að það hafi ekki farið illa fyrir neinum. Það er samt alltaf gaman þegar það er smá hiti í mönnum, svo lengi sem það fari ekki illa."

Kári sagði þau lið sem komust áfram í kvöld öll sterk og á sér enga óska andstæðinga í næstu umferð. "Það er bara alltaf gaman að fá heimaleik, það er það eina sem maður getur óskað sér."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×