„Mér finnst alltaf gaman af slíkum viðurkenningum og þeir sem halda öðru fram eru einfaldlega að ljúga," sagði Hlynur Bæringsson, besti leikmaður Iceland Express-deildar karla í umferðum 9-15.
„Þetta er svo sem ekkert sem maður stefnir að sérsatklega en það er þægileg tilfinning að vita að maður sé að gera eitthvað rétt."
Kjör á besta leikmanninum og liði umferðanna var kynnt í dag. Hlynur leikur með Snæfelli sem vann fjóra af þeim sjö leikjum í áðurnefndum umferðum. Liðið situr í sjötta sæti deildarinnar sem stendur en er komið í úrslit bikarkeppninnar.
„Ég hef verið mjög ánægður með gengi liðsins undanfarnar vikur. Við höfum fengið tvo sterka leikmenn aftur á fullu í liðið, þá Magna og Jón Ólaf og unnið sterk lið. Við unnum til að mynda Keflavík og Njarðvík tvisvar en töpuðum að vísu fyrir KR."
Magni Hafsteinsson var lítið með Snæfelli fyrir áramót og þá var Jón Ólafur Jónsson frá í rúma tvo mánuði vegna meiðsla.
En Hlyni líst vel á framhaldið. „Mér líst mjög vel á deildina og ég tel það gott að öll lið geti tapað alls staðar. Það er spilaður góður körfubolti og finnst mér deildin yfirhöfuð vera svolítið vanmetin."
„Okkar gengi hefur ekki verið neitt sérstakt og erum við í sjötta sæti sem stendur. Við stefnum á efstu fjögur sætin til að koma okkur í heimavallarrétt í úrslitakeppninni."
„Heimavallarrétturinn getur skipt miklu máli. Það er erfitt að lenda í fimmta sæti og fá þá sterkt lið í fyrstu umferð og eiga ekki heimavöllinn inni fyrir oddaleikinn."
„Svo í næstu umferð er spilað upp á þrjá sigurleiki og þá skiptir heimavöllurinn ekki jafn miklu máli. Það er alltaf hægt að stela einum leik á útivelli í svo löngum seríum ef liðið er á annað borð nógu gott til að komast áfram."