Logi Freyr Einarsson, sem handtekinn var í Noregi í síðustu viku í tengslum við Fáskrúðsfjarðarmálið, segir í samtali við Vísi að erfitt sé að vita af bróður sínum á Íslandi í gæsluvarðhaldi.
Loga Frey var sleppt úr haldi lögreglu í Noregi í gær. Hann er búsettur í Stavanger í Noregi ásamt konu og barni.
Vísir ræddi við Loga í morgun um Fáskrúðsfjarðarmálið og í því samtali vísaði Logi því á bug að hann væri einn höfuðpaura málsins. Logi sagði meðal annars að það að hann væri ekki lengur í gæsluvarðhaldi sýndi fram á það svo væri ekki.
Logi vildi annars lítið tjá sig um aðkomu sína að málinu en vísaði þess í stað á lögmann sinn.
Aðspurður hvernig hann hefði það í ljósi atburða síðustu daga svaraði Logi Freyr: "Það er þungt að vita af bróður mínum í varðhaldi."
Bróðirinn sem Logi Freyr vitnar til er Einar Jökull Einarsson. Einar Jökull var handtekinn í Reykjavík í síðustu viku og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 18. október vegna gruns um að hann stæði að stórfelldum innflutningi á hörðum eiturlyfjum til Íslands.
Þungt að vita af bróður mínum í varðhaldi
Andri Ólafsson skrifar
![Fimm menn voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í síðustu viku. Bróðir Loga Freys, Einar Jökull, var einn þeirra. Logi er sjálfur laus úr haldi.](https://www.visir.is/i/F9EACCDD57F0A1B198A124F2024C4A693C3EFFCDAF6AD4ECFF790677208EF560_713x0.jpg)