Vísir hefur undir höndunum myndir sem sýna skútuna Lucky Day þegar hún lá í Fáskrúðsfjarðarhöfn. Lucky Day er skútan sem Einar Jökull Einarsson, sem nú er í gæsluvarðhaldi vegna smyglskútumálsins, sigldi hingað til lands ásamt öðrum manni fyrir tveimur árum.
Þegar hann kom að landi fékk hann að hringja úr heimahúsi í bænum og hvarf svo á brott. Allt lauslegt var tekið úr skútunni og henni ekki sinnt fyrr en 13. maí í fyrra þegar skútan var sótt án þess að látið væri vita af því.
Bróðir Einars Jökuls, Logi Freyr Einarsson sem nú er í haldi lögreglu í Noregi, borgaði hafnargjöldin af Lucky Day.
Þykir þetta verklag óneitanlega minna á atburðina á Fáskrúðsfirði í gærmorgun.
Eins og sjá má á myndinni er Lucky Day ekki alls ósvipuð og skútan sem Guðbjarni Traustason og Alvar Óskarsson sigldu til landsins í gærmorgun.
Lucky Day í Fáskrúðsfjarðarhöfn
Andri Ólafsson skrifar
