Bjarni Hrafnkelsson fékk dóm árið 1994 fyrir að hafa skipulagt og fjármagnað innflutning á tæplega tveim kílóum af hassi til landsins. Sá innflutningur var í gegnum Keflavíkurflugvöll. Bjarni var handtekinn á heimili sínu í Hafnarfirði í gærmorgun. Í kjölfarið gerði lögreglan leit í bátnum Fagraey í Sandgerði sem er í hans eigu. Bjarni er talinn koma að skipulagningu og fjármögnun smyglskútumálsins.
Þeir sem sigldu seglskútunni með 60 kíló af amfetamíni, e-dufti og e-pillum til Fáskrúðsfjarðar í gærmorgun voru Guðbjarni Traustason og Alvar Óskarsson. Þeir eru báðir fæddir 1982 og voru einnig úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald í gær. Guðbjarni er búsettur í Sandgerði þar sem bátur Bjarna Hrafnkelssonar er staðsettur og hann starfar sem sjómaður. Eins og sakir standa er bátur Guðbjarna í slipp í Njarðvík.

Það mun vera talið að Bjarni Hrafnkelsson hafi fjármagnað smyglið en Einar Jökull séð um skipulagningu þess og framkvæmd.
Auk þessara manna var einn annar handtekinn og úrskurðaður í einnar viku gæsluvarðhald hér á landi. Það var karlmaður á þrítugsaldri sem kom á Fáskrúðsfjörð í bílaleigubíl frá Bílaleigunni Höldur til að taka á móti þeim Alvari og Guðbjarna.
Þá voru tveir handteknir í Færeyjum, Íslendingur og Dani, 23 og 24 ára gamlir. Í þeirri aðgerð fundust um tvö kíló af amfetamíni.
Loks voru maður og kona handtekin í Danmörku en þeim hefur nú verið sleppt úr haldi. Þau eru ekki talin tengjast smyglmálinu.