

Greint er frá fíkniefnafundinum á Fáskrúðsfirði í vefútgáfu danska dagblaðsins BT. Þar segir að tveir Íslendingar hafi verið handteknir í Kaupmannahöfn vegna málsins og að þá hafi danska lögreglan einnig lagt hald á fíkniefni.
Lögreglan hefur boðað til blaðamannafundar nú fyrir hádegið þar sem upplýsa á um þær lögregluaðgerðir sem fram fóru á Fáskrúðsfirði í morgun. Talið er að um stórt fíkniefnamál sé að ræða.
Lögregla lagði hald á tugi kílóa af ætluðum fíkniefnum í skútu á Fáskrúðsfirði í morgun. Nokkrir hafa verið handteknir en leit stendur enn yfir í skútunni. Rannsókn málsins hefur teygt anga sína til margra landa, að sögn lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu.
Upp komst um stærsta fíkniefnasmygl Íslandssögunnar í dag, þegar hald var lagt á að minnsta kosti sextíu kíló af amfetamíni í skútu í Fáskrúðsfjarðarhöfn.
Smyglskútan á Fáskrúðsfirði verður flutt til Reykjavíkur á morgun. Heimildir Vísis herma að báturinn verði fluttur landleiðina á flutningabíl. Skútur af þessari stærð eru með þónokkuð burðarþol og ætti að vera hægðarleikur að smygla nokkur hundruð kílóum til landsins í einni ferð, miðað við að tveir séu í áhöfn.
Fíkniefnafundur lögreglunnar á Fáskrúðsfirði mun ekki hafa mikil áhrif til verðhækkana á fíkniefnamarkaði til langs tíma litið að mati Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis á Vogi. Hann segir nægt magn fíkniefna nú þegar til staðar hér á landi til að anna eftirspurn.
Lögregluaðgerðum er lokið á Fáskrúðsfirði. Eins og Vísir greindi frá í morgun voru tveir menn handteknir sem komu með skútu á leið til hafnar í morgun. Talið er að í skútunni hafi verið tugir kílóa af fíkniefnum. Skútunnar beið aðkomubíll á bryggjunni og var ökumaður bílsins handtekinn. Að lögregluaðgerðinni komu fjölmennt lið lögreglunnar á Fáskrúðsfirði, Landhelgisgæslan, tollgæslan, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra.
Búið er að handtaka tíu menn í tengslum við fíkniefnamálið á Fáskrúðsfirði, fimm á Íslandi, tvo í Færeyjum, tvo í Danmörku og einn í Noregi. Allir eru Íslendingar nema einn sem er Dani.