Körfubolti

Bandaríkjamenn heppnir með mótherja

Bandaríkjamenn fóru heim með skottið á milli lappanna eftir HM síðasta sumar
Bandaríkjamenn fóru heim með skottið á milli lappanna eftir HM síðasta sumar NordicPhotos/GettyImages

Landslið Bandaríkjanna í körfubolta sleppur við að leika með liði Ólympíumeistara Argentínu í riðli í Ameríkukeppninni sem fram fer í sumar, en dregið var í riðla í dag. Tvö af liðunum tíu sem taka þátt tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í Peking á næsta ári.

Bandaríkjamenn hafa ekki riðið feitum hesti frá alþjóðakeppni undanfarin ár og þurfa því að ná í úrslit í Ameríkukeppninni í sumar til að tryggja Ólympíusætið. Takist það ekki þarf liðið að fara í sérstakt umspil um sæti á leiknum síðar í sumar, en þangað ná liðin sem ná 3.-5. besta árangrinum í Ameríkukeppninni.

Bandaríkjamenn lentu í B-riðli á Ameríkuleikunum sem hefjast 22. ágúst og andstæðingar þeirra þar verða Brasilía, Venisúela, Kanada og Jómfrúareyjar. Liðið slapp því við að mæta nokkrum sterkum þjóðum eins og Argentínu, Portó Ríkó og Mexíkó sem leika í A-riðli. Argentínska liðið er mjög sterkt og skipað fjölda leikmanna sem spila í NBA deildinni. Ekki er reiknað með því að Steve Nash leiki fyrir hönd Kanada í keppninni, en það hefur hann ekki gert síðan árið 2003.

Lið Bandaríkjanna hefur ekki unnið mót síðan það vann þessa sömu keppni í Portó Ríkó árið 2003. Liðið varð síðast Ólympíumeistari árið 2000 og heimsmeistari árið 1994. Síðast þegar Bandaríkjamenn tóku þátt í stórmóti höfnuðu þeir í þriðja sæti, en það var á heimsmeistaramótinu síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×