Viðskipti innlent

Industria meðal 50 framsæknustu fyrirtækja Evrópu

Industria á sýningunni IPTV World Forum í London í byrjun þessa mánaðar.
Industria á sýningunni IPTV World Forum í London í byrjun þessa mánaðar.

Viðskiptatímaritið CNBC European Business hefur í viðamikilli úttekt sem birt er í marshefti tímaritsins útnefnt íslenska fyrirtækið Industria sem eitt af 50 framsæknustu fyrirtækjum í Evrópu ásamt fyrirtækjum á borð við netsímafyrirtækið Skype Technologies. Í umsögn blaðsins segir að Industria geti reynst eitt mikilvægasta fyrirtækið í samruna sjónvarps og stafrænna miðla í Evrópu.

Á meðal þeirra fyrirtækja sem hlutu útnefningu CNBC European Business í öðrum flokkum má nefna Adidas, British Sky Broadcasting, BMW, Rolls Royce, Vodafone og Virgin Atlantic, svo fá ein séu nefnd.

Í umsögn tímaritsins segir: „Metnað Industria má meðal annars sjá í staðsetningu skrifstofa þess, í Bretlandi, Írlandi, Búlgaríu og Kína. Þetta íslenska fyrirtæki sérhæfir sig í hugbúnaði til tengingar breiðbandsneta og þráðlausra neta, og lausnir þess fyrir stafrænt sjónvarp og aðra þjónustu - sem ganga undir nafninu Zignal - hafa vakið mikla eftirtekt."

Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri Industria, segir í tilkynningu frá félaginu að viðurkenningin komi þægilega á óvart. „Það er ánægjulegt að sjá að heildarsýn Industria á samruna afþreyingar- og fjarskiptageirans er að vekja þá athygli sem raun ber vitni í úttekt breska ráðgjafarfyrirtækisins," segir hann.

Umsögn CNBC Europe






Fleiri fréttir

Sjá meira


×