Innlent

Halla Gunnarsdóttir býður sig fram til formanns KSÍ

Halla Gunnarsdóttir á blaðamannafundinum í morgun.
Halla Gunnarsdóttir á blaðamannafundinum í morgun. Vísir/Egill
Halla Gunnarsdóttir blaðamaður hefur ákveðið að gefa kost á sér til formanns Knattspyrnusambands Íslands. Frá þessu var greint á blaðamannafundi á veitingastaðnum Fish and Chips í miðborg Reykjavíkur í morgun.

Halla starfar nú sem þingfréttaritari Morgunblaðsins en sá til skamms tíma um þáttinn Þetta fólk á NFS. Halla, sem er 26 ára, er sú þriðja sem gefur kost á sér í embættið en áður hafa Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, og Jafet Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri VBS , lýst yfir framboði eftir að Eggert Magnússon tilkynnti að hann gæfi ekki kost á sér aftur. Kosið verður í embætti á ársþingi KSÍ í febrúar.

Í tilkynningu frá stuðningsmönnum Höllu kemur fram að hún hafi frá unga aldri lagt stund á knattspyrnu og starfað sem þjálfari bæði hér heima og erlendis. Hún leggi áherslu á þann jákvæða kraft sem búi í knattspyrnunni og telji að knattspyrnuiðkun hafi mikið forvarnargildi.

Einnig sé knattspyrna gott tæki til að vinna gegn fordómum og efla sjálfsmynd og samstöðu fólks. Halla vilji fótbolta fyrir alla en það hafi ekki verið raunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×