Var verið að skemmta sér? Guðmundur Andri Thorsson skrifar 27. ágúst 2007 05:45 Drykkjuskapur hefur verið þjóðarböl á Íslandi um aldir og þrátt fyrir gott starf áfengisvarnafólks virðist ekkert lát á hömlulausu svolgrinu - nýir árgangar koma sífellt geysiöflugir inn. Það er brotið og bramlað, hent og grýtt, hrinið og rýtt, slegið, sparkað og kýlt, röflað og rausað, gólað og gargað - og lumbrað á löggum. Ef marka má frásagnir heimamanna fara í viku hverri ungmenni um miðbæ Reykjavíkur í flokkum eins og innrásarher Ólafs digra í Gerplu, hlaðnir glingri og berjandisk og bölvandisk, mígandisk og gubbandisk en þó einkum brjótandisk gler. Glerflöskur, glerglös, gleráhöld - bara að það sé gler. Drukkið íslenskt ungmenni má með engu móti sjá gler án þess að gera sitt ítrasta til að mölva það mélinu smærra. Með því móti er þetta drukkna íslenska ungmenni víst að tjá sig. Og hvað skyldi nú sá vera að tjá sem tekur glerflösku og grýtir henni í götuna eins fast og hann getur? Ekki gleði að minnsta kosti. Miklu fremur harmÞessi tryllingur fólks sem á að heita komið til vits og ára – er að minnsta kosti fermt flest allt – bendir til einhverrar stórkostlegrar óhamingju íslensks æskufólks, einhverrar himinhrópandi vansældar, einhverrar stórkostlegrar brotalamar í sálarlífinu. Allt hlýtur að vera á tjá og tundri í heilabúi manns sem stundar glerbrot til að tjá sinn innri mann. Nú skyldi maður ætla að öll þessi glerbrot, allt þetta baul um nætur og allt þetta pissu-ráf inn í garða og dyragættir annars fólks – öll þessi viðurstyggð í framgöngu þessa volaða lýðs – yrði vísustu mönnum þjóðarinnar tilefni til að fjalla um orsakir svo raunalegrar hegðunar þegar fólk er að gera sér glataðan dag. Þetta er tilvalið ástand fyrir sálfræðinga og presta, skáld og stjórnmálamenn og annað sálgæslufólk og allar þessar skrafskjóður til að velta fyrir sér hvað hafi eiginlega farið úrskeiðis í uppeldi fólks sem svona hagar sér... Var það aldrei látið taka til í herberginu sínu – eða var aginn of mikill? Fékk það of mikið dót í bernsku, drakk það of mikið kók og úðaði það í sig of miklu nammi og of litlu af lýsi? Hlustaði það yfir sig á Eminem og aðra slíka orðadólga eða fékk það ekki nóg af bófarappi í uppeldinu? Ætti að senda unga glerbrjóta á sjóinn til að þeir finni kröftum sínum verðugt viðnám – eða á að senda þá á heimspekinámskeið í Ölfusborgum svo þeir læri að virða mannhelgi og húshelgi annarra? Með öðrum orðum: hvað gengur á? Hvað veldur? Hvað ber að gera? Ekki hefur maður mikið orðið var við slíkar vangaveltur. Hins vegar hefur þeim mun meira verið rætt um vínkæli í Ríkinu í Austurstræti og útiveru reykingafólks. Rætt hefur verið fram og aftur um það hvort téður vínkælir kunni að eiga sök á uppivöðslusemi róna í miðbænum – og er þá væntanlega hugmyndin sú að kældur bjór geri rónana illskeyttari en til dæmis kardímommudropar eða Pierre Roberts í appelsíni eins og mig minnir að hafi þótt býsna góður drykkur hjá þeirri stétt manna hér á árunum áður. En óneitanlega hljóta drykkjusvolarnir að hafa breyst nokkuð frá því í gamla daga ef kæling á bjór er helsti hvatinn að drykkju þeirra – eða er það hald manna að rónarnir sleppi því að fá sér drykk sé hann ekki almennilega kældur? Og auk þess eru það ekki rónarnir sem mest eru til vandræða í ölæðinu – það eru millistéttarkrakkarnir. Að því gefnu að það séu ekki komin einhver efni í sígaretturnar sem ekki voru þar áður – þó þeir væru svo sem vísir til að blanda einhverjum skratta í þær ódámarnir sem framleiða þær – þá hlýtur að teljast vafamál að sígarettureykingar á götum úti séu helsta orsök vandalisma ungmenna í miðbæ Reykjavíkur. Vissulega er til fólks sem haldið er þeim sjúkdómi að geta ekki haft stjórn á drykkju sinni – en ofstopafólkið sem fer eins og innrásarher um miðbæ Reykjavíkur um hverja helgi – eða gerir aðsúg að lögreglu fyrir utan Stuðmannaball á Seltjarnarnesinu – á sér engar slíkar málsbætur eða skýringar. Þetta er augljóslega þjóðfélagslegt mein sem á sér rætur í almennum lífsháttum hér á landi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun
Drykkjuskapur hefur verið þjóðarböl á Íslandi um aldir og þrátt fyrir gott starf áfengisvarnafólks virðist ekkert lát á hömlulausu svolgrinu - nýir árgangar koma sífellt geysiöflugir inn. Það er brotið og bramlað, hent og grýtt, hrinið og rýtt, slegið, sparkað og kýlt, röflað og rausað, gólað og gargað - og lumbrað á löggum. Ef marka má frásagnir heimamanna fara í viku hverri ungmenni um miðbæ Reykjavíkur í flokkum eins og innrásarher Ólafs digra í Gerplu, hlaðnir glingri og berjandisk og bölvandisk, mígandisk og gubbandisk en þó einkum brjótandisk gler. Glerflöskur, glerglös, gleráhöld - bara að það sé gler. Drukkið íslenskt ungmenni má með engu móti sjá gler án þess að gera sitt ítrasta til að mölva það mélinu smærra. Með því móti er þetta drukkna íslenska ungmenni víst að tjá sig. Og hvað skyldi nú sá vera að tjá sem tekur glerflösku og grýtir henni í götuna eins fast og hann getur? Ekki gleði að minnsta kosti. Miklu fremur harmÞessi tryllingur fólks sem á að heita komið til vits og ára – er að minnsta kosti fermt flest allt – bendir til einhverrar stórkostlegrar óhamingju íslensks æskufólks, einhverrar himinhrópandi vansældar, einhverrar stórkostlegrar brotalamar í sálarlífinu. Allt hlýtur að vera á tjá og tundri í heilabúi manns sem stundar glerbrot til að tjá sinn innri mann. Nú skyldi maður ætla að öll þessi glerbrot, allt þetta baul um nætur og allt þetta pissu-ráf inn í garða og dyragættir annars fólks – öll þessi viðurstyggð í framgöngu þessa volaða lýðs – yrði vísustu mönnum þjóðarinnar tilefni til að fjalla um orsakir svo raunalegrar hegðunar þegar fólk er að gera sér glataðan dag. Þetta er tilvalið ástand fyrir sálfræðinga og presta, skáld og stjórnmálamenn og annað sálgæslufólk og allar þessar skrafskjóður til að velta fyrir sér hvað hafi eiginlega farið úrskeiðis í uppeldi fólks sem svona hagar sér... Var það aldrei látið taka til í herberginu sínu – eða var aginn of mikill? Fékk það of mikið dót í bernsku, drakk það of mikið kók og úðaði það í sig of miklu nammi og of litlu af lýsi? Hlustaði það yfir sig á Eminem og aðra slíka orðadólga eða fékk það ekki nóg af bófarappi í uppeldinu? Ætti að senda unga glerbrjóta á sjóinn til að þeir finni kröftum sínum verðugt viðnám – eða á að senda þá á heimspekinámskeið í Ölfusborgum svo þeir læri að virða mannhelgi og húshelgi annarra? Með öðrum orðum: hvað gengur á? Hvað veldur? Hvað ber að gera? Ekki hefur maður mikið orðið var við slíkar vangaveltur. Hins vegar hefur þeim mun meira verið rætt um vínkæli í Ríkinu í Austurstræti og útiveru reykingafólks. Rætt hefur verið fram og aftur um það hvort téður vínkælir kunni að eiga sök á uppivöðslusemi róna í miðbænum – og er þá væntanlega hugmyndin sú að kældur bjór geri rónana illskeyttari en til dæmis kardímommudropar eða Pierre Roberts í appelsíni eins og mig minnir að hafi þótt býsna góður drykkur hjá þeirri stétt manna hér á árunum áður. En óneitanlega hljóta drykkjusvolarnir að hafa breyst nokkuð frá því í gamla daga ef kæling á bjór er helsti hvatinn að drykkju þeirra – eða er það hald manna að rónarnir sleppi því að fá sér drykk sé hann ekki almennilega kældur? Og auk þess eru það ekki rónarnir sem mest eru til vandræða í ölæðinu – það eru millistéttarkrakkarnir. Að því gefnu að það séu ekki komin einhver efni í sígaretturnar sem ekki voru þar áður – þó þeir væru svo sem vísir til að blanda einhverjum skratta í þær ódámarnir sem framleiða þær – þá hlýtur að teljast vafamál að sígarettureykingar á götum úti séu helsta orsök vandalisma ungmenna í miðbæ Reykjavíkur. Vissulega er til fólks sem haldið er þeim sjúkdómi að geta ekki haft stjórn á drykkju sinni – en ofstopafólkið sem fer eins og innrásarher um miðbæ Reykjavíkur um hverja helgi – eða gerir aðsúg að lögreglu fyrir utan Stuðmannaball á Seltjarnarnesinu – á sér engar slíkar málsbætur eða skýringar. Þetta er augljóslega þjóðfélagslegt mein sem á sér rætur í almennum lífsháttum hér á landi.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun