Biluð sjónvörp Guðmundur Andri Thorsson skrifar 13. ágúst 2007 05:45 Af hverju fer félagsskapurinn sem kallar sig Saving Iceland svona gegndarlaust í taugarnar á Íslendingum, nánast hvar í flokki sem þeir standa, og alveg óháð afstöðu þeirra til náttúruverndarmála? Það er ekki eins og við séum alveg óvön mótmælum og sumt fólk sem þau hefur iðkað af ástríðu um árabil nýtur jafnvel virðingar með þjóðinni fyrir staðfestu sína og hugsjónir - eins og til dæmis hins ástsæla Birna Þórðardóttir. Þetta eru náttúrlega stjórnleysingjar - anarkistar, nihilistar. Slíkt fólk hefur eiginlega aldrei þrifist í íslensku samfélagi þar sem hvorki hefur verið borgarmyndun að heita má og hvað þá aðalsstétt heldur bara misefnaðir dugnaðarforkar. Nihilistum hafa verið gerð best skil í skáldsögu Dostojevskís Djöflunum þar sem segir frá hinum útsmogna og gjörspillta Stavrogin og leikbrúðum hans sem eru landeyður úr aðalsstétt að ærast úr margra ættliða iðjuleysi. Hér á landi var náttúrlega enginn grundvöllur fyrir þess háttar hugarástandi - fyrr en þá ef til vill nú á síðustu árum þegar kvótaaðall í þriðja lið er hugsanlega farinn að velta sér upp úr tilgangsleysi allra hluta. Í öðru lagi verður ekki komist undan því að minnast á hinn stóra þátt útlendinga í aðgerðum hópsins, þótt vissulega komi öllu mannkyni það við þegar íslenskri náttúru er spillt. Óneitanlega fannst manni þetta sérkennileg birtingarmynd alþjóðavæðingarinnar: ekki þyrfti aðeins að flytja inn vinnuaflið til framkvæmdanna við Kárahnjúka heldur líka mótmælendurna; og ófagur vitnisburður um neysludoða Íslendinga. Saving Iceland hóf hinsvegar mótmælaaðgerðir sínar þegar allir gátu verið vissir um að að Kárahnúkavirkjun og álver í Reyðarfirði myndu rísa og baráttufólk gegn þessum framkvæmdum hafði almennt snúið sér að næsta máli á dagskrá. Aðgerðir samtakanna miðuðu þannig fremur að því að sýna að viðkomandi væru andvíg framkvæmdunum heldur en hinu að stöðva þær í raun og veru. Saving. Þetta er athyglisvert orð. Það er til dæmis á ensku - sem er nokkuð merkilegt því það undirstrikar þar með fullkomna upplausn þeirrar þjóðernishyggju sem var aflvaki íslenskrar vinstrimennsku allan seinni hluta tuttugustu aldar og Snorri Hjartarson orðaði: „Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein". Þetta er ekki ættjarðarást þar sem tungumálið og náttúran og samband mannsins við landið sitt renna saman í eina sterka kennd sem nærist líka á andúð örþjóðarinnar á erlendri ásælni. Fyrir nokkrum árum hefði sennilega verið óhugsandi að enska væri fyrsta mál í mótmælaaðgerðum gegn spjöllum á íslenskri náttúru, og sennilega er þetta enn eitt dæmið um undanhald íslenskunnar sem lifandi máls hjá ungu kynslóðinni. Aðgerðir samtakanna í Kringlunni í sumar, þar sem meðlimir hoppuðu um í Hare-Krisna-fíling og einhver Ameríkani átaldi Kringlugesti fyrir neysluæði benda líka til þess að meðlimir samtakanna líti ekki á það fólk sem á Íslandi býr sem verðugt þeirrar stórbrotnu náttúru sem hér er. Markmið samtakanna virðist vera að bjarga Íslandi undan Íslendingum. Saving: hér er ekki um að ræða hina venjulegu hvatningu sem við sjáum til að mynda í slagorðinu kunna Save the Whales! Lýsingarhátturinn gerir heitið sjálfbirgingslegra en ella: við erum að bjarga Íslandi - ekki ætlum eða ættum. Nema hér sé vísað til tölvumáls og átt við að verið sé að seifa „skjalið" Ísland, varðveita það í núverandi formi áður en farið er út úr því... Þegar meðlimir Saving Iceland hoppuðu um í Kringlunni og kættust yfir því að vera ekki eins og hinir þungbúnu neysluþrælar sem alla jafna fylla ganga þessa mikla musteris merkjavörunnar þá vakti athygli hið barnslega yfirbragð á aðgerðunum. Þetta var eins og Stubbarnir að hnoðast um og virkaði meira sætt en ógnandi á flesta - nema kannski lögregluna sem fagnaði því að fá loks hryðjuverkaógn að kljást við. Samtökin virka vissulega á almenning eins og óútreiknanleg öfgasamtök en þær öfgar birtast í kunnuglegum vandalisma og óþekkt sem löngum hefur fylgt íslenskum unglingum: þau sletta skyri og málningu, klifra upp í krana og fleygja sér gólandi á lögregluna... Eiginlega er Saving Iceland eins og al kaída krútt-kynslóðarinnar. Og samt er eitthvað: þegar þau koma skríkjandi og segja neysluæðinu stríð á hendur, þessir krakkar, verður manni óneitanlega hugsað til ljóðsins eftir Einar Má: Væri ég / bilað sjónvarp/ mundi ég örugglega / valda frekari truflunum / í lífi ykkar. Kannski eru þau biluð sjónvörp. Fjölskyldan hefur gengið út frá því sem vísu að hægt væri að kveikja á þeim og skipta rás á þeim og slökkva á þeim að vild eru allt í einu full af ókennilegu og óþægilegu suði og fjarstýringin hætt að virka... Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun
Af hverju fer félagsskapurinn sem kallar sig Saving Iceland svona gegndarlaust í taugarnar á Íslendingum, nánast hvar í flokki sem þeir standa, og alveg óháð afstöðu þeirra til náttúruverndarmála? Það er ekki eins og við séum alveg óvön mótmælum og sumt fólk sem þau hefur iðkað af ástríðu um árabil nýtur jafnvel virðingar með þjóðinni fyrir staðfestu sína og hugsjónir - eins og til dæmis hins ástsæla Birna Þórðardóttir. Þetta eru náttúrlega stjórnleysingjar - anarkistar, nihilistar. Slíkt fólk hefur eiginlega aldrei þrifist í íslensku samfélagi þar sem hvorki hefur verið borgarmyndun að heita má og hvað þá aðalsstétt heldur bara misefnaðir dugnaðarforkar. Nihilistum hafa verið gerð best skil í skáldsögu Dostojevskís Djöflunum þar sem segir frá hinum útsmogna og gjörspillta Stavrogin og leikbrúðum hans sem eru landeyður úr aðalsstétt að ærast úr margra ættliða iðjuleysi. Hér á landi var náttúrlega enginn grundvöllur fyrir þess háttar hugarástandi - fyrr en þá ef til vill nú á síðustu árum þegar kvótaaðall í þriðja lið er hugsanlega farinn að velta sér upp úr tilgangsleysi allra hluta. Í öðru lagi verður ekki komist undan því að minnast á hinn stóra þátt útlendinga í aðgerðum hópsins, þótt vissulega komi öllu mannkyni það við þegar íslenskri náttúru er spillt. Óneitanlega fannst manni þetta sérkennileg birtingarmynd alþjóðavæðingarinnar: ekki þyrfti aðeins að flytja inn vinnuaflið til framkvæmdanna við Kárahnjúka heldur líka mótmælendurna; og ófagur vitnisburður um neysludoða Íslendinga. Saving Iceland hóf hinsvegar mótmælaaðgerðir sínar þegar allir gátu verið vissir um að að Kárahnúkavirkjun og álver í Reyðarfirði myndu rísa og baráttufólk gegn þessum framkvæmdum hafði almennt snúið sér að næsta máli á dagskrá. Aðgerðir samtakanna miðuðu þannig fremur að því að sýna að viðkomandi væru andvíg framkvæmdunum heldur en hinu að stöðva þær í raun og veru. Saving. Þetta er athyglisvert orð. Það er til dæmis á ensku - sem er nokkuð merkilegt því það undirstrikar þar með fullkomna upplausn þeirrar þjóðernishyggju sem var aflvaki íslenskrar vinstrimennsku allan seinni hluta tuttugustu aldar og Snorri Hjartarson orðaði: „Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein". Þetta er ekki ættjarðarást þar sem tungumálið og náttúran og samband mannsins við landið sitt renna saman í eina sterka kennd sem nærist líka á andúð örþjóðarinnar á erlendri ásælni. Fyrir nokkrum árum hefði sennilega verið óhugsandi að enska væri fyrsta mál í mótmælaaðgerðum gegn spjöllum á íslenskri náttúru, og sennilega er þetta enn eitt dæmið um undanhald íslenskunnar sem lifandi máls hjá ungu kynslóðinni. Aðgerðir samtakanna í Kringlunni í sumar, þar sem meðlimir hoppuðu um í Hare-Krisna-fíling og einhver Ameríkani átaldi Kringlugesti fyrir neysluæði benda líka til þess að meðlimir samtakanna líti ekki á það fólk sem á Íslandi býr sem verðugt þeirrar stórbrotnu náttúru sem hér er. Markmið samtakanna virðist vera að bjarga Íslandi undan Íslendingum. Saving: hér er ekki um að ræða hina venjulegu hvatningu sem við sjáum til að mynda í slagorðinu kunna Save the Whales! Lýsingarhátturinn gerir heitið sjálfbirgingslegra en ella: við erum að bjarga Íslandi - ekki ætlum eða ættum. Nema hér sé vísað til tölvumáls og átt við að verið sé að seifa „skjalið" Ísland, varðveita það í núverandi formi áður en farið er út úr því... Þegar meðlimir Saving Iceland hoppuðu um í Kringlunni og kættust yfir því að vera ekki eins og hinir þungbúnu neysluþrælar sem alla jafna fylla ganga þessa mikla musteris merkjavörunnar þá vakti athygli hið barnslega yfirbragð á aðgerðunum. Þetta var eins og Stubbarnir að hnoðast um og virkaði meira sætt en ógnandi á flesta - nema kannski lögregluna sem fagnaði því að fá loks hryðjuverkaógn að kljást við. Samtökin virka vissulega á almenning eins og óútreiknanleg öfgasamtök en þær öfgar birtast í kunnuglegum vandalisma og óþekkt sem löngum hefur fylgt íslenskum unglingum: þau sletta skyri og málningu, klifra upp í krana og fleygja sér gólandi á lögregluna... Eiginlega er Saving Iceland eins og al kaída krútt-kynslóðarinnar. Og samt er eitthvað: þegar þau koma skríkjandi og segja neysluæðinu stríð á hendur, þessir krakkar, verður manni óneitanlega hugsað til ljóðsins eftir Einar Má: Væri ég / bilað sjónvarp/ mundi ég örugglega / valda frekari truflunum / í lífi ykkar. Kannski eru þau biluð sjónvörp. Fjölskyldan hefur gengið út frá því sem vísu að hægt væri að kveikja á þeim og skipta rás á þeim og slökkva á þeim að vild eru allt í einu full af ókennilegu og óþægilegu suði og fjarstýringin hætt að virka...
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun