Viðskipti innlent

Ríkasti Skotinn kaupir í Glitni

Sir Tom Hunter kominn inn í eigendahóp Glitnis með þriggja prósenta hlut.
Sir Tom Hunter kominn inn í eigendahóp Glitnis með þriggja prósenta hlut.

Sir Tom Hunter, sem sagður er auðugasti maður Skotlands, eignaðist í gær í það minnsta tveggja prósenta hlut í Glitni fyrir um átta milljarða króna. FL Group, stærsti hluthafinn í Glitni, keypti á sama tíma hlutabréf í bankanum fyrir 10,5 milljarða króna og ræður nú yfir tæpum þriðjungi hlutafjár.

Hunter er náinn viðskiptafélagi Baugs Group og hefur auður hans byggst upp á fjárfestingum í verslunargeiranum og fasteignaviðskiptum. Á síðasta ári tók Weast Coast Capital, fjárfestingafélag Skotans, þátt í kaupunum á House of Fraser ásamt Baugi, FL Group og fleiri fjárfestum. Félagið og Baugur voru einnig meðal kaupenda að Wyevale Garden Centres en sú yfirtaka nam fjörutíu milljörðum króna.

Þar með er Sir Hunter annar erlendi milljarðamæringurinn sem gengur í raðir íslenskra fjármálafyrirtækja á skömmum tíma. Fyrir nokkrum vikum bættist Robert Tchenguiz í eigendahóp Existu þegar hann eignaðist fimm prósenta hlut í félaginu sem er um fimmtán milljarða virði.

Hlutabréf í Glitni hækkuðu um 1,11 prósent í gær í 29 milljarða króna veltu. Frá ársbyrjun hefur gengi bréfanna hækkað um fimmtung.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×