Körfubolti

Cleveland - Seattle í beinni á Sýn í kvöld

LeBron James sýnir listir sínar fyrir áhorfendur Sýnar í kvöld
LeBron James sýnir listir sínar fyrir áhorfendur Sýnar í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Leikur Cleveland Cavaliers og Seattle Supersonics verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn klukkan hálf eitt eftir miðnætti í kvöld. Cleveland hefur unnið fjóra heimaleiki í röð og tíu af tólf alls, sem er besti árangur í Austurdeildinni. Mikil meiðsli eru í herbúðum Seattle sem hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á keppnisferðalagi á austurströndinni.

Cleveland hefur unnið fjóra af síðustu sex leikjum sínum og liðið vann nauman sigur á Charlotte Bobcats í síðasta leik, þar sem LeBron James náði sér aldrei á strik. Góðu fréttirnar eru þó þær fyrir Cleveland að bakvörðurinn Larry Hughes er nú loksins byrjaður að spila á ný eftir enn ein meiðslin og skoraði 15 stig í sigrinum á Charlotte. Cleveland hefur unnið 13 leiki og tapað 8 það sem af er tímabils.

Lið Seattle hefur verið í miklum vandræðum með meiðsli í vetur og bætir það gráu ofan á svart hjá félaginu, þar sem óljóst er hvort félagið verði mikið lengur í borginni eftir að það var selt í hendur fjárfesta í Oklahoma City. Aðalstjarna liðsins, Ray Allen, fór ekki með liðinu í keppnisferðalagið austur að þessu sinni og þar að auki hafa þeir Earl Watson og Danny Fortson átt við meiðsli að stríða. Það mun þó væntanlega mikið mæða á þeim Rashard Lewis og Luke Ridnour á meðan, en þeir eru tvær skærustu stjörnur liðsins á eftir Ray Allen. Seattle hefur unnið 8 leiki og tapað 13 það sem af er vetri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×