Körfubolti

Bryant fór hamförum gegn Utah

Kobe Bryant fór hamförum í þriðja leikhlutanum í nótt og skoraði þá 30 af 52 stigum sínum, sem er aðeins 3 stigum frá því að jafna met George Gervin frá því árið 1978
Kobe Bryant fór hamförum í þriðja leikhlutanum í nótt og skoraði þá 30 af 52 stigum sínum, sem er aðeins 3 stigum frá því að jafna met George Gervin frá því árið 1978 NordicPhotos/GettyImages

Tveir leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt sem leið og það var Kobe Bryant hjá LA Lakers sem stal senunni eins og svo oft áður þegar hann skaut lið Utah Jazz í kaf upp á sitt einsdæmi í 132-102 sigri Lakers. Bryant skoraði 52 stig í leiknum, þar af 30 stig í þriðja leikhlutanum einum saman.

Lið Lakers hafði frumkvæðið allan tímann og greinilegt var að leikurinn við San Antonio kvöldið áður sat í leikmönnum Utah, sem voru orkulausir lengst af leiknum. Kobe Bryant bætti svo gráu ofan á svart með stórleik sínum í þriðja leikhlutanum, þegar hann skoraði tveimur stigum minna en allt lið Utah í fjórðungnum. Lamar Odom skoraði 14 stig, hirti 11 fráköst og gaf 8 stoðsendingar fyrir Lakers, en Carlos Boozer skoraði 26 stig fyrir Utah. Leikurinn var sýndur beint á NBA TV.

Detroit lagði Miami á útivelli 87-85 og var þetta sjöundi sigur Detroit í röð. Rip Hamilton skoraði 24 stig fyrir Detroit, en Dwyane Wade skoraði 21 stig og gaf 8 stoðsendingar fyrir Miami og hitti raunar aðeins úr 5 af 23 skotum sínum í leiknum, sem er sjaldgæft hjá þessum frábæra leikmanni. Meistararnir hafa nú tapað 9 af fyrstu 15 leikjum sínum á tímabilinu og eiga fyrir höndum fjögurra leikja ferðalag á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×