Körfubolti

Houston lagði Chicago

Tracy McGrady átti góðan leik fyrir Houston í nótt
Tracy McGrady átti góðan leik fyrir Houston í nótt NordicPhotos/GettyImages

Tveir leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Golden State vann góðan sigur á Sacramento og Houston skellti Chicago á heimavelli þrátt fyrir að glutra enn og aftur niður góðu forskoti í lokin.

Leikstjórnandinn Baron Davis fór á kostum þegar Golden State lagði Sacramento á heimavelli sínum 117-105 í leik sem sýndur var beint á NBA TV. Davis skoraði 36 stig, gaf 18 stoðsendingar og hirti 8 fráköst. Mickael Pietrus skoraði 26 stig og Monta Ellis 17 stig. Hjá Sacramento var Kevin Martin stigahæstur með 26 stig og hirti 9 fráköst og Ron Artest skoraði 20 stig og hirti 12 fráköst.

Houston lagði Chicago naumlega 101-100 eftir að hafa verið 21 stigi yfir eftir þriðja leikhluta. Andres Nocioni skoraði þriggja stiga körfu fyrir Chicago um leið og lokaflautið gall og minnkaði muninn í eitt stig - en hann vildi meina að brotið hefði verið á sér og sluppu Houston menn með skrekkinn.

Tracy McGrady átti fínan leik í liði Houston, skoraði 21 stig, hirti 11 fráköst og gaf 7 stoðsendingar og Yao Ming skoraði 20 stig og hirti 12 fráköst. Ben Gordon skoraði 37 stig af bekknum hjá Chicago - þar af 30 í síðari hálfleik - og Luol Deng skoraði 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×