Körfubolti

Óvænt gengi Utah Jazz heldur áfram

NordicPhotos/GettyImages

Utah Jazz er með besta árangur allra liða í NBA deildinni eftir að liðið lagði LA Clippers 112-90 á heimavelli sínum í nótt. Utah hefur unnið 7 leiki og tapað 1, en lið Clippers hafði unnið 5 leiki í röð áður en það lá í Salt Lake City í nótt.

Mehmet Okur skoraði 27 stig fyrir Utah í nótt, Matt Harpring skoraði 22 og þeir Deron Williams og Carlos Boozer skoruðu 16 hvor - Boozer hirti auk þess 15 fráköst. Cuttino Mobley skoraði 18 stig fyrir Clippers og Corey Maggette 17. Þetta er besta byrjun Utah í 8 ár.

Milwaukee lagði Atlanta naumlega á útivelli 103-101. Joe Johnson og Tyrone Lue skoruðu 29 stig fyrir Atlanta, en Michael Redd skoraði 30 fyrir Milwaukee.

Denver skellti Miami 112-105. Carmelo Anthony skoraði 33 stig fyrir Denver og Andre Miller skoraði 29 stig, gaf 10 stoðsendingar og hirti 8 fráköst. Dwyane Wade skoraði 37 stig, gaf 11 stoðsendingar og hirti 8 fráköst hjá Miami, sem var án Shaquille O´Neal vegna meiðsla hans.

New Orleans lagði Charlotte á bak við stórleik Peja Stojakovic, sem skoraði 42 stig fyrir New Orleans og hitti mjög vel úr skotum sínum. Emeka Okafor skoraði 25 stig, hirti 16 fráköst og varði 7 skot hjá Charlotte.

Minnesota lagði Portland 101-89. Zach Randolph skoraði 26 stig og hirti 9 fráköst hjá Portland, en Ricky Davis skoraði 27 stig fyrir Minnesota og Kevin Garnett var með 20 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar.

Dallas lagði Chicago 111-99. Dirk Nowitzki skoraði 31 stig fyrir Dallas en Kirk Hinrich var með 25 stig fyrir Chicago.

San Antonio nýtti sér góðan endasprett til að vinna 92-84 sigur á grönnum sínum í Houston. Tracy McGrady skoraði 26 stig fyrir Houston en Tim Duncan skoraði 19 stig og hirti 15 fráköst fyrir San Antonio.

Loks vann Golden State öruggan sigur á Toronto í beinni á NBA TV 110-99. Baron Davis skoraði 22 stig og gaf 12 stoðsendingar hjá Golden State, en Chris Bosh skoraði 23 stig og hirti 22 fráköst hjá Toronto.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×