Innlent

Ætla að funda á ný um afnám tolla

Forystu Bændasamtakanna og Samfylkingunni greinir á um hvernig staðið skuli að lækkun matarverðs. Bændur hafa sagt tillögur Samfylkingarinnar ganga að landbúnaðinum dauðum en fylkingarnar funduðu í dag og stefna að fleiri fundum á næstunni.

Samfylkingin vill afnema vörugjöld og lækka matarskatt auk þess að afnema tolla í áföngum og boðaði flokkurinn að þingsályktunartillaga um málið yrði lögð fram á haustþingi. Bændasamtökin brugðust illa við og sögðu þessar tillögur gera út af við íslenskan landbúnað. Helst er það afnám tollverndar sem leggst illa í bændur en Samfylkingin vill afnema þá í tveimur áföngum, fyrst um helming næsta sumar og svo að fullu ári seinna. Samfylkingin boðaði forystu Bændasamtakanna á sinn fund í dag og stendur til að halda annan fund á næstunni.

Eftir fundinn í dag sagði Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi skilið að tveggja ára aðlögunartími fyrir bændur hafi verið of lítill.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segist tilbúin til þess að skoða það að gefa bændum lengri aðlögunartíma en tvö ár við afnám tolla en það eigi eftir að ræða betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×