Innlent

Gefur út framtalsform og bæklinga til að auðvelda skattskil

Ríkisskattstjóri hefur gefið út bæklinga og framtalsform á sjö tungumálum til þess að auðvelda þeim útlendingum sem hingað koma til tímabundinna starfa að telja fram. Þeim hefur fjölgað mjög á undanförnum árum og við því er ríkisskattstjóri að bregðast.

Á vefsíðu ríkisskattstjóra, rsk.is/international, má nú nálgast bæklinga með upplýsingum um skatta, staðgreiðslu, framtalsskil og álagningu ásamt einfaldaðri útgáfu af skattframtali á sjö tungumálum. Þessi tungumál eru enska, rússneska, spænska, kínverska, þýska, franska og pólska. Að auki geta Norðurlandabúar nálgast upplýsingar á nordisketax.net. Þar má finna upplýsingar á dönsku sænsku, norsku, finnsku, ensku og íslensku, sem einkum eru ætlaðar þeim sem fara á milli Norðurlandanna til náms eða starfa.

Einfalt form skattframtals fyrir þá sem starfað hafa tímabundið hér á landi, má nú fylla út á skjánum og prenta út á PDF formi og hægt er að skila því til skattstjóra á pappír fyrir brottför úr landi, en stefnt er að því að fljótlega verði þessi framtalsskil rafræn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×