Innlent

Ofbeldismenn verði fjarlægðir tafarlaust af heimilum

Frumvörp um nálgunarbann og meðferð sakamála sem dómsmálaráðherra kynnti í ríkisstjórn í gær ganga ekki nógu langt að mati Vinstri-grænna og talsmanna Samtaka um Kvennaathvarfs. Þeir vilja meðal annars að ofbeldismenn verði fjarlægðir tafarlaust af heimilum.

Dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær hvernig staðið yrði að kynningu á frumvörpum til laga um meðferð sakamála og um nálgunarbann. Gunnella Jónsdóttir, formaður stjórnar Samtaka um kvennaathvarf, sagði í viðtali á NFS í morgun að frumvarp um nálgunarbann gengi ekki nógu langt. Drífa Snædal, framkvæmdastýra Vinstri-grænna, tekur í sama streng. Verið sé að lögfesta það fyrirkomulag að lögregla óski eftir nálgunarbanni og svo taki dómari það fyrir. Drífa segir að nær sé að fara austurrísku leiðina þar sem lögreglan hefur það vald að ákveða sjálf nálgunarbann í einhverja daga áður en það er tekið fyrir hjá dómara. Þannig er hægt að fjarlægja ofbeldismenn mun hraðar af heimilum.

Samkvæmt frumvarpi um meðferð sakamála verður ekki lengur refsivert að stunda vændi til framfærslu. Hins vegar er refsivert að bjóða fram miðla eða óska eftir kynmökum í opinberri auglýsingu. Margrét Steinarsdóttir, sem situr í framkvæmdastjórn Stígamót, segir að æskilegt hefði verið að gera kaup á vændi refsiverð. Því er Drífa sammála enda segist hún ekki skilja afhverju ríkisstjórnin hiki við að banna kaup á vændi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×