Innlent

Ábyrgðin hjá fjármálaráðuneytinu

„Fjármálaráðuneytið verður að hysja upp um sig buxurnar," segir Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands. Hún segir sjúkraliða á Landspítalanum-háskólasjúkrahúsi vera langþreytta á álagi og manneklu á sjúkrahúsinu.



Sjúkraliðafélag Íslands krefst þess að kjör sjúkraliða á Landspítalanum- háskólasjúkrahúsi verði bætt til samræmis við kjör annarra sjúkraliða í heilbrigðis- og félagsgeiranum. Í ályktun sem trúnaðarmenn félagsins sendu frá sér í gær er þess jafnframt krafist að gengið verði frá nýjum stofnanasamning við sjúkraliða þegar í stað. Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir mannekluna vera mikla á Landspítlanum og það komi fram í auknu álagi á starfsfólkinu. Hún nefnir dæmi um deild með 11 stöðugildi en þar séu ekki nema 4 stöðugildi mönnuð.



Hún segir að rót vandans sé einkum þá að misræmi sé í kjarasamningurm sjúkraliðanna. Nýútskrifaðir sjúkraliðar séu til að mynda að fá menntun sína metna til jafns við menntun félagsliða. Þeir finni sér því frekar starf innan félagsþjónustunnar enda á betri launum þar. Kristín leggur þó skýrar áherslur á að ekki sé við stjórn Landspítalans að sakast þar sem ábygðin sé fyrst og fremst hjá fjármálaráðuneytinu að leiðrétta muninn í kjarasamningunum.

Um 500 sjúkraliðar vinna á Landspítalanum. Kristín segir að nú þegar hafi fólk hætt vegna stöðunnar og fólk sé orðið langeygt eftir varnanlegri lausn. Sjúkraliðarnir geta lítið gert annað en að bíða úrlausnar í málum sínum, þeir geta ekki farið í verkfall en tíminn mun leiða í ljós hvort einhverjir velji þann kostinn að segja starfi sínu lausu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×