Innlent

Skattstjóri segist hafa hreinan skjöld

Skattstjórinn í Reykjavík segir embættið hafa algjörlega hreinan skjöld í aðkomu þess að tekjuathugun lífeyrissjóðanna á örorkulífeyrisþegum. Hann vill þó ekki tjá sig um einstök mál.

Í fréttum NFS í gær var rætt við Þóri Karl Jónasson, einn þeirra sem verður fyrir skerðingu lífeyrisbóta frá og með 1. nóvember næstkomandi í framhaldi af tekjuathugun lífeyrissjóðanna. Þórir segir að Skattstjóranum í Reykjavík hafi ekki verið heimilt að afhenda skattframtöl sín við þessa tekjuathugun lengur en 6 ár aftur í tímann, og er Persónuvernd með mál hans í athugun. Í bréfi skattstjóraembættisins til Persónuverndar kemur fram að Þórir hafi veitt umboð til þess við mat á örorku hans árið 1992.

Í samtali við NFS í morgun sagði Gestur Steinþórsson, skattstjóri í Reykjavík, að hann gæti ekki tjáð sig um einstök mál sem komi inn á borð embættisins. Hins vegar sé það svo að óheimilt sé að veita upplýsingar úr skattframtölum nema til gjaldandans sjálfs. Gjaldandanum er svo heimilt að veita öðrum umboð til að komast í framtölin.

Í umræddu umboði Þóris frá 1992 stendur orðrétt: "Ég ... heimila sjóðsstjórn að fá afrit af skattframtölum mínum hjá skattstjóranum sem farið verður sem trúnaðarmál." Rétt er að taka fram að þarna vantar líklega orðið "með". Aðspurður hvað honum finnist um þá fullyrðingu Þóris að það umboð sé ekki framvirkt segir Gestur að ef umboðið sé ótakmarkað, og ekki með neinum fyrirvara um að það falli úr gildi á einhverjum ákveðnum tíma, þá hljóti það náttúrlega að standa.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×