Innlent

Magnús gerir upp við Björgólf Thor

Magnús Kristinsson, sem stóð í hörðum átökum við Björgólf Thor Björgólffson í stjórn Straums-Burðaráss sendir Björgólfi tóninn í blaðagrein í dag. Segir Magnús að rót átakanna sé andstaða hans gegn því að Björgólfur notaði Straum-Burðarás til að leggja tugi milljarða í eigin fjárfestingarverkefni.

Það stóð lengi stríð í Straumi-Burðarási á milli tveggja eigendafylkinga - önnur var undir forystu Björgólfs Thors, hina leiddi Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum. Lauk þessu með því að Magnús og hans menn seldu kjölfestuhluti sína í þessum fjárfestingarbanka í sumar. Í Morgunblaðinu í dag gerir Magnús upp þessi átök og vandar Björgólfi Thor ekki kveðjurnar. Segir hann að Björgólfur hafi sótt það fast að Straumur setti tugi milljarða í fjárvörslu Novator sjóðsins - undir stjórn Björgólfs. "Þá sagði ég nei" - segir Magnús og bætir við að þarna hafi fyrst orðið raunverulegur trúnaðarbrestur á milli þeirra. Taldi hann að Straumur gæti fengið amk jafngóða ávöxtun annars staðar og með minni tilkostnaði.

Magnús greinir einnig frá því að Björgólfur hafi verið leynilegur kaupandi að myndarlegum hlut í Kaldbaki á sama tíma og Kaldbakur hafi verið að sameinast Burðarási. Sólarhring eftir kaupin hafi Björgólfur svo selt þennan hlut aftur til Burðaráss og hagnast um milljarð. Hafi Björgólfur setið báðum megin borðs sem stjórnarformaður í Samson, sem seldi, og stjórnarformaður í Burðarási, sem keypti. Segir Magnús að þetta dæmi - og önnur - séu til marks um það að hversu brýnt það sé að stjórnendum almenningshlutafélaga sé það ljóst að þeim beri umfram allt að gæta hagsmuna félags síns og allra hluthafa þess - og það jafnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×