Innlent

Síðustu þyrluvakt varnarliðslins lauk í morgun

Þyrlusveit Tf-Líf við æfingar.
Þyrlusveit Tf-Líf við æfingar. Mynd/Vilhelm

Síðustu vakt björgunarþyrlna Varnarliðsins á Miðnesheiði lauk í morgun. Þar með eru aðeins tvær björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar til taks ef á þarf að halda.

Tilkynnt var um lokun herstöðvarinnar á Miðnesheiði fyrir hálfu ári síðan. Fimm björgunarþyrlur varnarliðsins voru staðsettar þar en nú hafa aðstæður breyst vegna brottflutnings Varnarliðsins frá Keflavíkuflugvelli. Nú eru einungis tvær björgunarþyrlur Landhelgisgæslunar, Tf-Líf og TF Sif, til bjargar mannslífum við erfiðar aðstæður á sjó og landi. Ásgrímur L. Ásgrímsson, staðgengill framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, segir að báðar þyrlunar séu í góðu ástandi og tilbúnar til notkunar þegar á þarf að halda. Landhelgisgæslan vinnur nú að þjálfun mannskaps fyrir nýjar þyrlur sem leigðar verða frá Noregi. Þyrlurnar verða leigðar til haustsins 2008 með möguleika á framlengingu leigusamningsins. Verið er að breyta þyrlunum og laga að íslenskum aðstæðum en þær eru sömu gerðar og þyrlurnar tvær sem fyrir eru hjá Landhelgisgæslunni. Ásgrímur segir að verið sé að þjálfa þyrluflugmenn, flugvirkja og stýrimenn sem munu starfa sem sigmenn. Mannskapurinn hefur verið við þjálfun síðan í sumar og munu því verða tilbúnir í slaginn þegar nýjar þyrlur bætast í þyrluflota Landhelgisgæslunnar um næstu mánaðarmót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×