Innlent

Lögreglan lagði hald á fíkniefni og skotvopn

Lögreglan í Hafnarfirði lagði hald á fíkniefni, skotvopn og þýfi þegar húsleit var gerð á tveimur stöðum í Hafnarfirði í dag. Franklín Steiner, sem er þekktur í fíkniefnaheiminum, var handtekinn.

Annað húsanna er í miðbæ Hafnarfjarðar og er Franklín Steiner húsráðandi þar en hann er þekktur í fíkniefnaheiminum. Franklín hefur hlotið fangelsisdóma fyrir fíkniefnasmygl og sölu fíkniefna.

Samkvæmt heimildum NFS hefur lögreglan lengi fylgst með húsinu. Við húsleit lögreglunnar í dag fundust hass, amfetamín og LSD. Á öðrum staðnum fannst einnig meint þýfi, hnífar, skotvopn og skotfæri.

Samkvæmt heimildum NFS eru einhver skotvopananna skráð á Franklín Steiner.

Lögreglan í Hafnarfirði naut aðstoðar starfsbræðra sinna í Kópavogi, sérsveitar Ríkislögreglustjóra og Tollgæslunnar við aðgerðirnar auk þess sem notaðir voru fíkniefnahundar. Ekki hefur fengist gefið upp hversu mikið af fíkniefnum hafi fundist í húsunum tveimur.

Franklín er nú í haldi lögreglunnar og bíður yfirheyrslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×