Innlent

Ekki útilokað að samið verði á Íslandi

Íslensk stjórnvöld útiloka ekki þann möguleika að stríðandi fylkingum á Srí Lanka verði boðið til friðarviðræðna á Íslandi. Unnið verði náið með Norðmönnum en reynist rétt að deilendur treysti þeim ekki í viðræðunum ætli Íslendingar ekki að liggja á liði sínu.

Í fréttum NFS í gærkvöldi var rætt við Keheliya Rambukwella, talsmann ríkisstjórnar Srí Lanka. Þar sagði hann koma til greina að setjast að samningaborðinu með uppreisnarmönnum Tamíl tígranna á Íslandi. Hann sagði stjórnina andvíga því að halda viðræðunar í Osló í byrjun október.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, segir mestu skipta að koma deilendum að samningaborðinu í hennar huga sé ekki aðalatriðið hvar funur verði haldinn. Staðreyndin sé hins vegar sú að Norðmenn hafi verið í forystu í friðarviðræðum og vopnahlé hafi verið staðfest í Osló árið 2002. Norðmenn hafi allt þetta ár verið að reyna að koma þessum öflum að samningaborðinu.

Valgerður vill ekki útiloka það að deilendum verði boðið til viðræðna á Íslandi. Spila þurfi úr hlutunum af yfirvegun og skynsemi. Rétt sé að geta þess að Norðmenn hafi meiri reynslu í þessum málum en Íslendingar en ef rétt reynist að Norðmönnum sé ekki treyst að fullu þá muni Íslendingar gera allt sem í sínu valdi stendur til að hjálpa í friðarviðræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×