Innlent

Sýning á útsaumuðum handaverkum opnar í Þjóðminjasafninu

Þjóðminjasafnið
Þjóðminjasafnið MYND/Hörður

Ný sýning á útsaumuðum handaverkum listfengra kvenna frá ýmsum tímum verður opnuð í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands í dag klukkan 15. Fjölmörg verk skreyta salinn en allmörg slík eru í eigu Þjóðminjasafnsins.

Sýningin byggir á niðurstöðum Elsu E. Guðjónsson, textíl- og búningafræðings sem lengi starfaði við Þjóðminjasafnið. Elsa, sem fædd er árið 1924, gerði rannsóknir á íslenska refilsaumnum og textíl hvers konar að ævistarfi sínu.

Veggtjöld voru bæði notuð í kirkjum og venjulegum híbýlum og á sýningunni er margt dýrgripa: hluti úr eina íslenska reflinum svokallaða sem varðveist hefur, veggtjöld frá 17. og 18. öld, altarisklæði og kirkjugripir á borð við korpóralshús, hökul og altarisbrúnir. Myndefni útsaumsins er fjölbreytt, m.a. sótt í Biblíuna og sögur helgra manna en einnig í kynjadýraveröld fyrri alda. Þarna má sjá stílfært jurta- og dýraskraut, leturlínur úr sálmum og skýringarorð.

Sýningin stendur í hálft ár og í tengslum við hana mun Þjóðminjasafnið gefa út veglega bók eftir Elsu, grundvallarrit um íslenska refilsauminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×