Innlent

Bein íslenskra folalda notuð í vaxtahvetjandi lyf

MYND/Anna Fjóla

Bein íslenskra folalda eru notuð sem hráefni í vaxtahvetjandi lyf sem framleitt er í Þýskalandi. Bændur hér á landi njóta góðs af verkefninu þar sem þeir fá hærra verð greitt fyrir folöld sem notuð eru við lyfjaframleiðsluna.

Það er Sláturfélag Suðurlands sem stendur að verkefninu í samvinnu við þýska lyfjafyrirtækið Ossacur AG. Það hófst fyrir þremur árum sem tilraunaverkefni og hefur reynslan verið mjög góð að sögn Seinþórs Skúlasonar, forstjóra SS. Hann segir lyfið vera vaxahvata sem notað sé til viðgerða á beinum, t.a.m. til að láta hryggjarliði vaxa saman ef brjóskið á milli þeirra er ónýtt.

En hvernig kom það til að þýskur lyfjaframleiðandi fór að leita sér folaldabeina á Íslandi? Steinþór svarar því til að fyrir 3-4 árum fóru forsvarsmenn Ossacur að hafa áhyggjur af ástandinu í Evrópu út af kúariðu og öðrum sjúkdómum og vildu finna „uppsprettu sem væri hrein". Í kjölfarið höfðu þeir samband við SS og hjólin fóru að snúast.

Steinþór reiknar með að bein úr um 200 folöldum verði flutt út á þessu ári, um 20% folalda sem SS slátrar, og líklega enn fleiri á komandi árum.

Og verkefnið kemur íslenskum bændum til góða því þeir fá uppbót á kílóverðið á folöldunum. Þeir þurfa þá t.d. að afhenda folöld, sem ráðgert var að slátra í nóvember, til slátrunar sem fram á að fara í byrjun september.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×