Innlent

Ekki einsdæmi að reynt sé að hafa áhrif á fræðimenn

Páll Skúlason fyrrum rektor Háskóla Íslands segir að þrír menn innan háskólans hafi komið að máli við sig vegna málflutnings Stefáns Ólafssonar prófessors um efnahagsmál. Hann segir að þegar háskólamenn tjái sig opinberlega þá geri þeir það í eigin nafni en ekki háskólans.

Líkt og fram kom í fréttum NFS í gær sagði Stefán Ólafsson, prófsessor við Háskóla Íslands, að þrýst hafi verið á rektor Háskóla Íslands árið 2003, um að hafa áhrif á afskipti Stefáns af efnahagsmálum.

Páll segir skoðanaskipti háskólamanna falla misvel í kramið hjá fólki en áréttar að fræðimenn háskólans tali í eigin nafni og nafni sinna fræða þegar þeir tjái sig opinberlega um hin ýmsu þjóðfélagsmál. Hann segir að rektor einn geti tjáð sig í nafni háskólans.

Páll segir dæmi Stefáns ekkert einsdæmi og fleiri menn, háskólamenn og embættismenn, hafi talað við sig vegna málflutnings annarra háskólamanna en Stefáns á því átta ára tímabili sem hann gegndi starfi rektors. Páll vill ekki gefa upp nöfn þeirra manna og segir þá ekki hafa haft erindi sem erfiði.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, segir engan hafa reynt að hafa afskipti að málflutningi háskólamanna síðan hún tók við starfi sínu árið 2005.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×