Innlent

300 Hornfirðingar í helgarferð í boði Skinneyjar-Þinganess

Það er rólegt um að litast á Höfn í Hornafirði þessa dagana en þrjú hundruð Horfirðingar fóru í helgarferð til Tallin í Eistlandi í boði Skinneyjar-Þinganess á miðvikudaginn. Útgerðin fagnar sextíu ára afmæli sínu í ár og af því tilefni var starfsfólki og mökum boðið til Eistlands.

Um 1.700 manns búa á Höfn og því eru um einn sjötti íbúa Hafnar fjarverandi þessa dagana. Allir bátar Skinneyjar-Þinganess eru í landi vegna þessa og allt er með kyrrum kjörum í frystihúsinu.

Farþegarnir 300 flugu með þremur flugvélum frá Egilsstöðum til Tallin á miðvikudagskvöldið og mun hópurinn dvelja í borginni í fjórar nætur. Auk ferðarinnar verður hópnum boðið í tvær skoðunarferðir og til hátíðarkvöldverðar sem var í gærkvöldi. Starfsmenn Skinneyjar Þinganess koma eflaust endurnærðir til starfa á ný á þriðjudaginn enda veitir ekki af, því það styttist í síldarvertíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×