Körfubolti

Repúblikanarnir eru að eyðileggja landið

Charles Barkley
Charles Barkley NordicPhotos/GettyImages

Fyrrum körfuboltamaðurinn Charles Barkley íhugar nú að fara í framboð til fylkisstjóra í Alabama og í viðtali við Fox sjónvarpsstöðina sem fer í loftið á sunnudag, segir Barkley að Repúblikanar séu að fara eyðileggja Bandaríkin. Hann sagðist ennfremur ekkert hafa á móti því að samkynhneigðir fengju að ganga í hjónaband.

Barkley var í draumaliði Bandaríkjamanna árið 1992 og var kjörinn besti leikmaður deildarinnar árið 1993. Hann var repúblikani þangað til fyrir skömmu, þegar hann ákvað að ganga til liðs við demókrata. Hann segir að þar sé ástandið ekki mikið skárra.

"Ég ákvað að segja skilið við repúblíkana af því þeir eru að eyðileggja landið, en demókratarnir eru ekki mikið skárri, því í stað þess að benda á það sem miður hefur farið hjá stjórnvöldum í tíð George Bush, kjósa þeir heldur að velta sér upp úr því að rakka forsetann niður. Þeir átta sig ekki á því að það þýðir ekkert. Maðurinn verður við völd í nokkur ár í viðbót og þeir geta ekkert að því gert - þeim væri nær að reyna að undirbúa næstu kosningar," sagði Barkley hneykslaður.

Hann viðurkennir að hann sé ekki vel að sér á öllum sviðum þegar kemur að því að sitja í embætti fylkisstjóra, en bendir á að ef hann ákveði að fara í framboð, muni hann reyna að sinna málefnum fólksins - án tillits til hörundslitar þess eða fjárhagsstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×