Innlent

Segir mótmælendur hafa haldið starfsfólki í gíslingu

Frá Reyðarfirði.
Frá Reyðarfirði.

Hópur andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar lét að sér kveða á Reyðarfirði í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Eskifirði fór einn maður inn á byggingarsvæði álvers Alcoa og stöðvaði þar vinnu í eina til tvær klukkustundir. Hann var handtekinn á staðnum og færður til yfirheyrslu en sleppt að þeim loknum.

Þá fór um 10 manna hópur inn á skrifstofur fyrirtækisins Hönnunar sem unnið hefur með Landsvirkjun að Kárahnjúkavirkjun. Að sögn lögreglu hélt hópurinn starfsfólki í gíslingu og reyndi svo að loka sig inni á skrifstofu en tókst ekki.

Hópurinn hvarf á braut áður en lögregla kom á vettvang en hún telur sig vita hverjir voru þar á ferð og er hún nú að undirbúa skýrslutöku. Lögregla segir eingöngu útlendinga hafa verið í hópnum og þetta sé hluti af þeim staðið hafi fyrir mótmælum uppi á Kárahnjúkum að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×