Innlent

Sjófuglar taldir á næstu árum

Engar óyggjandi rannsóknir eru til um það hvort sjófugli hafi fækkað hér á landi undanfarin ár. Helstu rannsóknarstofnanir landsins í náttúrufræði ætla að ráða bót á því og hafa hafið talningu í stærstu sjófuglabjörgum landsins sem ekki hefur farið fram í 20 ár.

Fréttir hafa undanfarið borist af því að viðkomubrestur hafi orðið hjá ýmsum sjófuglategundum hér við land, nú síðast á Seltjarnarnesi þar sem kríuvarp misfórst nánast alveg.

Því vakna spurningar hvort sjófugli hafi fækkað hér við land undanfarin ár. Kristján Lilliendahl, fuglafræðingur hjá Hafrannsóknarstofnuninni, segir upplýsingar úr smærri sjófuglabyggðum benda til þess að þeim fari fækkandi en nýjar upplýsingar vanti úr stærstu sjófuglabjörgunum, Látrabjargi og Horn- og Hælavíkurbjargi. Talning hefur ekki farið þar fram í 20 ár en í ár og næstu ár á að ráða bót á því. Kristján segir að með því að bera nýju tölurnar saman við tölurnar fyrir tuttugu árum geti menn séð hvort eitthvað hafi breyst en hann tekur fram að talningarverkefnið taki um þrjú til fjögur ár.

Skorti á æti, sérstaklega sandsíli, hefur verið kennt um viðkomubrest hjá sjófuglinum en rannsóknir Kristjáns sýna að það sama á ekki við alls staðar í kringum landið. Kristján segir rannsóknirnar sýna að sandsíli sé aðalfæða sjófugla fyrir sunnan og vestan land en fyrir norðan land sé það hins vegar loðnan.

Ásamt því að kanna hvort sjófuglum hafi fækkað hefur Hafró einnig hafið rannsóknir á stofnsveiflum sandsílis. Niðurstöður þeirra rannsókna liggja þó væntanlega ekki fyrir fyrr en einhvern tíma á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×