Innlent

Rukkuðu Impregilo meira en aðra

Heilbrigðiseftirlit Austurlands braut jafnræðisreglu stjórnsýslulaga í viðskiptum sínum við verktakafyrirtækið Impregilo. Eftirlitið breytti gjaldskrá sinni á þann veg að Impregilo þurfti að borga 30 prósent umfram aðra viðskiptavini.

Það var í janúar 2004 sem Heilbrigðiseftilit Austurlands breytti gjaldskrá sinni á þann veg að rukkað var þrjátíu prósent meira fyrir eftirlit tengdu stóriðju og virkjanaframkvæmdum en fyrir hefðbundið eftirlit. Var gjaldskrárbreytingin gerð þegar umfang starfsemi Impregilo var orðin ljós. Í janúar á þessu ári kærði Impregilo gjaldskrárbreytinguna til umhverfisráðuneytisins.

Þórarinn V. Þórarinsson, lögmaður Impregilo, segir úrskurðinn sigur fyrir Impregilo. Á þremur árum nemi viðskipti Impregilo við heilbrigðiseftirlitið milljónum. Hann segir ekki algengt að gjaldskrárákvæði opinberra aðila séu ógilt á þeim grundvelli að þau feli í sér mismunun. Mismununin hafi hins vegar verið augljós þar sem sömu starfsmenn heilbrigðiseftrlitsins hafa sinnt eftirliti með stóriðjuframvkæmdum Impregilo og hinu hefðbundna eftirliti.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar Umhverfisráðuneytisins kemur fram að Heilbrigðiseftirlit Austurlands hafi tekið upp sérákvæðið vegna hugsanlegrar aukningar leyfisveitinga á svæðinu. Líkamsræktarstöðvar og kvikmyndahús gætu risið og því hafi verið nauðsynlegt að taka upp aukið gjald með auknu flæði starfsleyfisumsókna.

Þrátt fyrir að nefndin hafi komist að því að Heilbrigðiseftirlitið hafi brotið jafnræðisreglu stjórnsýslulaga er kröfum Imrpegilo um endurgreiðslu þeirrar upphæðar sem Heilbrigðiseftirlitið rukkaði Impregilo aukalega um vísað frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×