Innlent

Drasl í Raufarhólshelli

Grýlukerti í botni hellisins
Grýlukerti í botni hellisins MYND/Einar Elí

Ekki er hægt að segja að fyrsti spölurinn um Raufarhólshelli hafi verið mjög grýttur í dag, líkt og varað er við á skilti fyrir utan hann. Innar í hellinum tók við spýtnabrak, stálull og trégrindur, plastpokar og gosflöskur. Yfir einu opi hellisins hafði einnig verið komið fyrir trégrind.

Ferðamenn hafa ekki verið par ánægðir með þessa nýju ásýnd Raufarhólshellis. Ástæðan fyrir draslinu var að tekið var upp atriði fyrir kvikmyndina Astrópíu í hellinum fyrir tæpum tveimur vikum síðan. Hellirinn er í eigu sveitarfélagsins Ölfus, en leyfi var veitt fyrir tökunum svo fremi sem kvikmyndatökumennirnir gengju frá eftir sig.

Nú stuttu fyrir fréttir náðist í annan framleiðanda myndarinnar, Júlíus Kemp, þar sem hann var í Raufarhólshelli við tiltektir. Myndin er ævintýragrínmynd sem tekin var upp á ýmsum fallegum stöðum, þar á meðal í Heiðmörkinni og við Kleifarvatn. Búið var að ganga frá á öllum öðrum stöðum en farið var í Raufarhólshellinn í dag. Ástæðan fyrir því að beðið var svo lengi með frágang var sú að bíða þurfti eftir framköllun á myndefninu til að hægt væri að taka niður sviðsmyndina. Það er því hægt að róa göngumenn með því að hellirinn verður bráðum sjálfum sér líkur á ný. Myndin Astrópía verður frumsýnd á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×