Innlent

Gætu verið elstu prentuðu bækur landsins

Tvær bækur fundust í uppgreftrinum á Skriðuklaustri í einni og sömu gröfinni sem er einsdæmi. Önnur bókanna var hugsanlega prentuð í fyrstu prentsmiðju landsins að Hólum. Margir af helstu fornleifasérfræðingum heims hafa komið hingað til lands að undanförnu til að taka þátt í rannsóknum á þeim munum sem finnast í uppgreftrum fornleifafræðinga víða um land.

Einn slíkur er staddur á Skriðuklaustri en það er doktor Elsa Pacciani, einn fremsti beinafræðingur Ítala en hún getur meðal annars lesið úr sliti á beinum og beinafestingum hvað einstaklingar hafa líklegast unnið við.

Bækurnar sem fundust að Klaustri, fundust í gröf manns sem að öllum líkindum var var mjög háttsettur maður í Klaustrinu eru líklega frá 15. eða 16. öld. Fornleifafræðingar hafa unnið að undanförnu að uppgreftri í tveimur gröfum sem fundust í kór klaustursins á Skriðu. Í annarri gröfinni fannst bronsspenna en við nánari athugun kom í ljós um bókarspennu var að ræða. Ekki er búið að hreinsa bækurnar en þær hafa verið sendar til Reykjavíkur til rannsóknar.

Í það minnsta önnur bókin er prentuð og vitað er að Jón Arason lét prenta bækur á Hólum fyrir siðaskipti og gætu bækurnar því verið frá honum. Hugsanlega eru þó þarna á ferðinni innfluttar sálmabækur. Uppgreftrinum á Skriðu lýkur á næstunni og við taka rannsóknir á þeim munum sem fundist hafa. Ragnheiður Traustadóttir, forsvarsmaður Hólarannsóknarinnar segir afar spennandi að fá úr því skorið hvort bækurnar hafi verið prentaðar á Hólum, í fyrstu prentsmiðju sem flutt var til landsins. Það væru þá elstu leifar bóka sem prentaðar hefðu verið á Íslandi. Sérfræðingar Hólarannsóknarinnar hafa varið miklum tíma undanfarin ár í að rannsaka prenthúsin á Hólum en elstu húsaleifarnar eru frá seinni hluta 16. aldar þannig að ekki er víst að enn hafi fundist prentsmiðja Jóns Arasonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×