Lífið

Mezzoforte í Ungverjalandi

Mezzoforte spilaði í Ungverjalandi í fyrsta skipti um helgina en þar var hljómsveitinni afar vel tekið. Hljómsveitin er nú á leið norður í land og spilar á Græna Hattinum föstudaginn 23. júní og í Egilsbúð 24. júní á Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi.

Fyrri tónleikarnir í Ungverjalandi fóru fram þann 16. júní í Szeged sem er bær nálægt landamærum Rúmeníu og Serbíu. Drengjunum var vel tekið en tónleikarnir voru haldnir í einskonar útileikhúsi í miðjum bænum. Eftir tónleikana var haldið á veitingahús í bænum þar sem látunum linnti ekki fyrr en Mezzoforte tóku við af húsbandi staðarins við gríðarlegan fögnuð viðstaddra.

Á þjóðhátíðardaginn var líka fagnað í Budapest en þá var ártíð elstu brúarinnar á milli Buda og Pest. Mezzoforte var aðalnúmer þeirrar hátíðar og stigu síðastir á stokk en kvöldinu lauk með magnaðri flugeldasýningu eftir að strákarnir höfðu lokið leik sínum og verið klappaðir upp við mikinn fögnuð. Það voru um 10.000 manns sem stóðu á bökkum Dónár þennan þjóðhátíðardag og dönsuðu með Mezzoforte.

Forsala aðgöngumiða fyrir tónleikana á Græna Hattinn er á midi.is og BT Akureyri auk þess sem nálgast má miða í verslunum Skífunnar. Mjög takmarkað magn miða er í boði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×