Roberto Mancini hefur varað sína menn í Inter Milan við að reyna að spila upp á jafntefli í leiknum við PSV Eindhoven frá Hollandi í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld, en ítalska liðið náði 2-2 jafntefli á útivelli í fyrri leiknum.
"Við getum ekki leyft okkur að hugsa um jafntefli í þessum leik, það er hættulegt og við verðum að fara í leikinn til að vinna hann," sagði Mancini, en kollegi hans Danny Blind hjá PSV er einnig með sitt herbragð á hreinu. "Við verðum að gæta þess að gefa þeim ekki það pláss sem við gáfum þeim á heimavelli, því þá fer illa. Við getum klárlega skorað í Mílanó, en við verðum að spila þéttar en við gerðum í fyrri leiknum," sagði Blind.
Leikurin fer fram annað kvöld og verður að sjálfssögðu í beinni útsendingu á Sýn.