Lífið

Óvenjulegt listaverk

Listamaðurinn, Finnur Arnar og forstjóri Samskipa, Ásbjörn Gíslason við afhjúpun verksins.
Listamaðurinn, Finnur Arnar og forstjóri Samskipa, Ásbjörn Gíslason við afhjúpun verksins.

Listaverkið „Áfangastaður" eftir Finn Arnar var afhjúpað við hátíðlega athöfn í anddyri nýja Samskipahússins í gær en það var unnið sérstaklega fyrir félagið með þessa staðsetningu í huga.

Listaverkið er nokkuð nýstárlegt því það samanstendur af ljósgjafa undir blárri glerplötu sem á birtist orðið „áfangastaður" í hvert sinn sem skip á vegum Samskipa nær höfn, hvort sem er hér heima eða erlendis.

Hugmynd listamannsins með verkinu er að gera bæði starfsfólk og gesti Samskipa meðvitaðri um umfang félagsins og til að hugsa um sig og Samskip í stærra samhengi. Má segja að þannig öðlist áhorfandinn líka hlutdeild í því sem er að gerast þegar orðið „áfangastaður" kemur í ljós á glerplötunni, lifir í nokkrar mínútur og dofnar svo aftur. Jafnframt vita nærstaddir að einhvers staðar í heiminum er skip á vegum Samskipa komið heilu í höfn.

Kjarni listaverksins, eða rót þess, er eins og fyrr segir staðsett í anddyri Samskipahússins en tæknilega getur listaverkið átt sér eins marga „skugga" eða útstöðvar eins og henta þykir. Þegar hefur t.d. verið komið fyrir skugga í matsal starfsfólks í Samskipahúsinu og Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, sagði við afhjúpun verksins að stefnt væri að því að allar skrifstofur Samskipa verði tengdar verkinu þegar fram í sækir.

„Þetta er verk sem ég held að fylgi okkur langt inn í framtíðina. Það minnir á upprunann, hafið bláa hafið, og sjóflutninga," sagði Ásbjörn m.a. við þetta tækifæri, „og það verður góð tilfinning að sjá að sjómenn okkar og farmur eru komnir heilir í höfn."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×