Hópur fjárfesta sem tengist Viðskiptablaðinu hefur keypt bresku frétta- og upplýsingaveituna M2 Communications Limited. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þeim.
Það er Gunnar Jóhann Birgisson, stjórnarformaður Framsýnar, útgáfufélags Viðskiptablaðsins, sem fer fyrir fjárfestahópnum en Gunnlaugur Árnason, ritstjóri Viðskiptablaðsins, hefur verið ráðinn aðalritstjóri M2.
Félagið sérhæfir sig í rafrænni fréttaþjónustu og dreifingu frétta og fréttatilkynninga og hefur blaðamenn víða um heim. Í tilkynningu fjárfestanna segir að efni M2 nái til allt að sjö milljóna manna um allan heim á degi hverjum.
Samhliða kaupunum hefur Viðskiptablaðið stofnað fyrstu íslensku fréttastofuna, Icelandic Financial News (IFN), sem mun sérhæfa sig í fréttum af íslensku viðskipta- og efnahagslífi. Fréttum IFN mun verða dreift í gegnum samstarfsaðila M2, svo sem Reuters og Dow Jones, en síðar mun einnig verða hægt að gerast áskrifandi að þjónustunni.