Toppliðin í Iceland Express deild karla í körfubolta unnu öll sannfærandi sigra í leikjum kvöldsins. Njarðvíkingar sigruðu ÍR 88-71 á heimavelli, Keflavík vann öruggan sigur á Haukum í Hafnarfirði, KR lagði Þór 86-77 og Grindvíkingar rótburstuðu Hött á Egilsstöðum 127-70.
Mesta spennan var án efa í Grafarvogi, þar sem Snæfellingar höfðu sigur á heimamönnum í Fjölni á lokasekúndu leiksins 75-73, þar sem Ingvaldur Magni Hafsteinsson skoraði sigurkörfuna um leið og lokaflautið gall. Þá vann Skallagrímur öruggan sigur á Hamri 105-82 í Borgarnesi.
Njarðvíkingar eru í efsta sæti deildarinnar með 30 stig, Keflavík í öðru með 26, en þá koma Grindavík og KR með 24 stig í þriðja og fjórða sæti.