Tónlist

Skammtur af Degi

Diskurinn Dauðaskammturinn færir ljóðum Dags Sigurðarsonar framhaldslíf.
Diskurinn Dauðaskammturinn færir ljóðum Dags Sigurðarsonar framhaldslíf.

Hljómdiskurinn Dauðaskammtur sem er samstarfsverkefni tónlistarmannsins Þórs Eldon og ljóðskáldsins Dags Sigurðarsonar hefur nú verið endurútgefinn hjá forlaginu Smekkleysu. Dauðaskammtur kom upprunalega út á vordögum undir heitinu Túnglskinsmjólk en það upplag seldist upp á skömmum tíma.

Rekja má rætur verkefnisins til ársins 1985 því þá hafði Þór Eldon umsjón með upptökum á ljóðasnældunni „Fellibylurinn Gloría“ sem Grammið gaf út. Á henni lásu nokkur skáld eigin ljóð með frjálsri aðferð, sum með undirleik en önnur ekki. Eitt af skáldunum sem las inn á snælduna var Dagur Sigurðarson. Hann þurfti engan undirleik því svo mikil tónlist var í ljóðunum hans. Dagur las ljóðin sín upp eins og rokkstjarna á stóru sviði, jafnvel þótt upptökusalurinn væri kjallarahola við Klapparstíginn. Dagur var kóngurinn og höllin það rými sem hann var staddur í hverju sinni.

Átta árum síðar var Dagur staddur á heimili Þórs í Reykjavík við mjólkurdrykkju. Þór var þá að vinna að tónlist sem hann leyfði Degi að heyra og ekki leið á löngu þar til Dagur greip í hljóðnemann og kyrjaði áhrifamikla möntru inn á fjögurra rása upptökutæki Þórs. Þeir ákváðu í framhaldinu að vinna meira saman í þessum dúr en því miður varð ekkert úr þar sem Dagur lést nokkrum misserum síðar.

Þór hélt upptökunum til haga og koma nú út lög Þórs við sjö af ljóðum skáldsins sem les þau sjálfur við undirleik Þórs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×