Tónlist

Megas í meðförum

Magga Stína treður upp ásamt sérlegri sveit sinni Flytja lög Megasar norðan og sunnan heiða.
Magga Stína treður upp ásamt sérlegri sveit sinni Flytja lög Megasar norðan og sunnan heiða. MYND/Heiða

Söngkonan Magga Stína og hennar liðtæka hljómsveit halda tvenna tónleika á næstunni, annað kvöld verða listir leiknar á kaffihúsinu Græna hattinum á Akureyri og á föstudagskvöld troða hljómlistarmennirnir upp á Domo bar við Þingholtsstræti í Reykjavík.

Magga Stína og félagar kynna disk sinn, Magga Stína syngur Megas, þar sem heyra má nýjar útsetningar á tón- og textasmíðum Megasar, þar af þrjú ný lög tónskáldsins. Lög á borð við „Fílahirðirinn frá Súrín“ og „Aðeins eina nótt“ hafa víða hljómað á öldum ljósvakans og fá hlustendur nú tækifæri til þess að heyra þau í lifandi flutningi. Uppselt var á útgáfutónleika sveitarinnar í nóvember og góður rómur gerður að frammistöðu listamannanna þar .

Sveitina skipa Kristinn H. Árnason gítarleikari, Guðni Finnsson kontrabassaleikari, Hörður Bragason sem leikur á harmonikku og fleiri ólíkindatól og trommu- og slagverksleikarinn Sigtryggur Baldursson.

Miðar á tónleikana verða seldir í Pennanum, Glerártorgi, og við inngang Græna hattarins en miðar á tónleikana sunnan heiða eru seldir á midi.is, á forlagsskrifstofu Bjarts við Bræðraborgarstíg og við inngang djassbúllunnar Domo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×