Tónlist

Árviss viðburður hér eftir

Jakob Frímann vill efla veg íslenskrar tónlistar með því að festa Dag íslenskrar tónlistar í sessi.
Jakob Frímann vill efla veg íslenskrar tónlistar með því að festa Dag íslenskrar tónlistar í sessi.

Dagur íslenskrar tónlistar verður haldinn hátíðlegur í dag. Dagurinn hefur verið haldinn nokkrum sinnum á undanförnum árum en nú stendur til að festa einn dag á ári í sessi. Til þess að ræða framtíð þessa dags og efla samstöðuna í kringum hann verður haldinn hádegisverðarfundur á Hótel Borg í dag.

„Við viljum efla veg íslenskrar tónlistar og höfum hug á því að gera þennan dag að árvissum viðburði frá og með 2007," segir Jakob Frímann Magnússon hjá Samtóni, samtökum rétthafa tónlistar.

„Það er líka verið að koma á ákveðnu samráði á milli þeirra afla sem starfa á vettvangi íslenskrar tónlistar. Við lítum á að það fari saman að mörgu leyti hagsmunir, ekki bara höfunda, flytjenda, útgefenda, rétthafa tónlistar og tónlistarunnenda, heldur einnig þeirra sem fást við það að fjalla um tónlist og byggja megindagskrárefni sitt á tónlist," segir Jakob og nefnir þátt hins opinbera einnig til sögunnar.

Flutningur á íslenskri tónlist verður í fyrirrúmi hjá útvarpsstöðvum landsins í dag og vill Jakob sérstaklega vekja athygli á útvarpsstöðinni Kananum sem spili eingöngu íslenska tónlist alla daga. Bætir hann því við að hálft þriðja þúsund íslenskra laga hafi verið gefið út á árinu og yfir tvö hundruð íslenskar plötur gefnar út. „Það er útilokað að hinar íslensku útvarpsstöðvarnar, sem eru flestar háðar auglýsingamarkaði, geti sinnt svo fjölbreytilegri flóru sem er ekki öll að alþýðuskapi og er sértæk í mörgum tilfellum."

Á fundinum í dag verður m.a. rætt um heppilega tímasetningu fyrir Dag íslenskrar tónlistar og um umgjörð dagsins í framtíðinni með hliðsjón að því hvernig hefur tekist til með Dag íslenskrar tungu. Jafnframt verða ræddar hugmyndir um íslenskt tónlistarsumar, sem eitt sinn var mikil stoð og stytta íslenskrar tónlistarútgáfu og -flutnings.

„Það er verk að vinna á vettvangi lifandi tónlistar sem hefur átt undir högg að sækja, ekki síst utan borgarmarkanna," segir Jakob, sem býst við því að Dagur íslenskrar tónlistar verði framvegis haldinn hátíðlegur á haustin þegar útgáfan fyrir jólin er að hefjast.

Ragnheiður Gröndal. Söngkonan unga gefur út plötu fyrir jólin og lög af henni fá eflaust að hljóma á íslenskum útvarpsstöðvum í dag, á Degi íslenskrar tónlistar.
.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×