Innlent

Liðsheildin verður sterkari

Forysta Nýs afls hefur ákveðið að leggja samtökin niður sem stjórnmálaflokk og hvetja félagsmenn til að ganga í Frjálslynda flokkinn.

Jón Magnússon, formaður Nýs afls, segir þessa tilhögun hafa átt sér dálítinn aðdraganda. Formlegar viðræður stóðu ekki lengi en upphaf þeirra var fyrir síðustu kosningar, segir Jón. Frumkvæðið hafi komið frá fólki sem stóð utan flokkanna tveggja.

Guðjón A. Kristjánsson, for­maður Frjálslynda flokksins, segir það gott ef fólk vilji ganga til liðs við flokkinn. Það er mjög gott þegar hópar sem liggja nálægt hvor öðrum í ýmsum málefnum ná saman.

Báðir segja þeir einhvern áherslumun að finna á stefnu flokkanna en benda á að stefnuskrár séu til endurskoðunar á flokksþingum og ekki loku fyrir það skotið að stefna Frjálslynda flokksins taki breytingum.

Ekkert er ákveðið um framboðsmál Frjálslyndra fyrir þingkosningarnar í vor og lögðu báðir áherslu á að ekki hefðu verið gerðir samningar um að félagar í Nýju afli fengju sérstök sæti á framboðslistum.

Rúmlega 400 eru á félagaskrá í Nýju afli. Yfir þúsund eru í Frjálslynda flokknum. Báðir flokkar buðu fram í öllum kjördæmum í síðustu þingkosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×