Innlent

Tekin á stolnum bíl fullum af þýfi

Félagsheimilið Árnes Brotist var inn í félagsheimilið í gær og stolið þaðan ýmsum verðmætum.
Félagsheimilið Árnes Brotist var inn í félagsheimilið í gær og stolið þaðan ýmsum verðmætum.

Tveir piltar um tvítugt og sextán ára stúlka voru handtekin í gær vegna gruns um innbrot í félagsheimilið Árnes en þaðan var stolið fartölvum, flatskjá, skjávarpa og töluverðu af áfengi. Lögreglan á Selfossi handtók ungmennin og við leit í bifreið þeirra fannst þýfi úr innbrotinu í Árnesi.

Þremenningarnir voru teknir til yfirheyrslu og kom í ljós að þau höfðu stolið bílnum á Húsavík aðfaranótt sunnudagsins. Þau tóku stefnuna suður og að sögn lögreglunnar eru þau grunuð um að hafa brotist inn í að minnsta fjóra sumar­bústaði í Borgarfirði auk þess að valda skemmdum. Þá fann lögregla tæki og tól til fíkniefnaneyslu í fyrrnefndum bústöðum.

Lögreglan í Borgarnesi úti­lokar ekki að þremenningarnir hafi brotist inn í fleiri sumarbústaði því iðulega berist ekki tilkynn­ingar um slíkt fyrr en eigendur komi að bústöðum sínum.

Lögreglan í Reykjavík hafði lýst eftir stúlkunni. Hún er ólögráða og hafði strokið að heiman.

Piltarnir tveir eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þeir eiga að baki sakaferil, hafa verið teknir við innbrot og brotið fíkniefnalög.

Þá staðfestir lögreglan í Kópavogi að piltarnir liggi undir grun um að hafa framið afbrot í Kópavogi. Samstarf verði milli lögregluembættanna við lausn þeirra mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×