Innlent

Hvetur konur til framboðs

Sólveig pétursdóttir Segist aldrei hafa litið svo á að þingmennska væri ævistarf.
Sólveig pétursdóttir Segist aldrei hafa litið svo á að þingmennska væri ævistarf.

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, lætur af þingmennsku í vor. Hún tilkynnti um ákvörðun sína á fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík í gær.

Sólveig sagðist í samtali við Fréttablaðið í gær hafa verið í yfir tuttugu ár í stjórnmálum, fyrst í borgarmálum og svo á þingi, og það væri orðinn góður tími. „Ég hef aldrei litið svo á að þingmennska væri ævistarf og finnst eðlilegt að það verði endurnýjun.“

Sólveig var í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins 1986-1990 og var þá jafnframt varaþingmaður. Hún tók fast sæti á Alþingi 1. febrúar 1991. Sólveig gegndi formennsku í allsherjar- og utanríkismálanefndum þingsins, hún var dóms- og kirkjumálaráðherra 1999-2003 og er nú forseti Alþingis. Hún segist hafa verið heppin að fá að gegna miklum trúnaðarstörfum um ævina og fengið tækifæri til að fylgja pólitískum áherslum sínum eftir.

Sólveigu er umhugað um framgang kvenna í stjórnmálum og hvetur konur til að gefa kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. „Ég hef farið í gegnum fimm prófkjör og þó það geti verið harður slagur er þetta lýðræðisleg aðferð. Það virðist stundum erfiðara fyrir konur en karla að koma sér á framfæri en það er engu að kvíða og ég hvet konur til að gefa kost á sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×