Innlent

Hundaheppni að ekki fór verr

Héraðsdómur Reykjavíkur Átján ára piltur hefur verið dæmdur fyrir stórfellda líkamsárás.
Héraðsdómur Reykjavíkur Átján ára piltur hefur verið dæmdur fyrir stórfellda líkamsárás.

Átján ára piltur hefur verið dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir að ráðast að föður sínum með hnífi. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi dóminn í gær og eru níu mánuðir dómsins skilorðsbundnir til fimm ára.

Málavextir eru þeir að pilturinn réðist á föður sinn á veitingahúsinu Kaffisetrinu aðfaranótt 17. júní síðastliðins í kjölfar deilna um fjölskyldumál. Feðgarnir höfðu fyrr um kvöldið lent í átökum á heimili sínu með þeim afleiðingum að báðir hlutu minniháttar áverka. Stuttu síðar hélt rifrildi þeirra áfram á fyrrnefndum veitingastað og bar vitnum saman um að faðirinn hafi egnt son sinn meðal annars með því að kalla hann ítrekað „aumingja“.

Við það missti pilturinn endanlega stjórn á sér, greip til hnífs og stakk föður sinn í hægri síðu.

Pilturinn viðurkenndi við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa ætlað sér að drepa föður sinn en hann dró þann vitnisburð til baka fyrir dómi.

Hnífurinn, sem var rúmlega 16 sentimetra langur, stakkst um 10 til 15 sentimetra inn í síðu föðurins, í gegnum lifrarblað og skaddaði hægra nýra. Í vottorði læknis kom fram að faðirinn hefði vafalaust látist ef hann hefði ekki komist undir læknishendur. Sagði í vottorðinu að hundaheppni hefði ráðið því að ekki fór verr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×