Innlent

Samkaup skoða kaup á Lóni

Þrír íhuga kaup á rekstri Lóns á Þórshöfn, en eigendur verslunarinnar óskuðu eftir að hún yrði tekin til gjaldþrotaskipta fyrir helgi. Fyrirtækið Samkaup er meðal þeirra sem sýnt hafa áhuga.

Lónið er eina matvöruverslunin á Þórshöfn og hefur auk þess rekið bensínstöð og brauðgerð. Olíufélagið mun taka við rekstri bensínstöðvarinnar og verður hún opin áfram.

„Það hefur ekkert tilboð borist enn, en þrír hafa sýnt áhuga á kaupum,“ segir Hreinn Pálsson, lögmaður og skiptastjóri Lóns. Hann segir að Samkaup sé í þeim hópi og að fulltrúar fyrirtækisins hafi verið á Þórshöfn á föstudag að skoða húsakost og aðstæður. Þá hafi aðilar í nágrenni Þórshafnar einnig sýnt áhuga á að kaupa reksturinn.

Hreinn segir stefnt að því að halda versluninni opinni næstu daga. Ef verslunin lokar verður langt fyrir íbúa Þórshafnar að sækja matvöru því næsta matvöruverslun er á Vopnafirði, í um sjötíu kílómetra fjarlægð.

„Það er von okkar að sterkir aðilar komi að rekstrinum og það sem fyrst,“ segir Björn Ingimarsson sveitarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×