Innlent

PCB-efnin send til Þýskalands

Síðasti gámurinn fluttur. Efnin hafa verið flutt úr landi í fimm ferðum. Hér sést síðasti gámurinn með jarðveginum sem sendur var úr landi í gær.
Síðasti gámurinn fluttur. Efnin hafa verið flutt úr landi í fimm ferðum. Hér sést síðasti gámurinn með jarðveginum sem sendur var úr landi í gær. MYND/Valli

Síðustu sekkirnir með PCB-menguðum jarðvegi, sem geymdir hafa verið á svæði Hringrásar í Klettagörðum frá því árið 2001, voru í gær sendir með skipi Atlantsskipa áleiðis til Þýskalands þar sem efnið verður urðað í spilliefnamóttöku.

Eins og greint hefur verið frá í Fréttablaðinu hafa á milli 100 og 150 tonn af PCB-menguðum jarðvegi verið send úr landi en spilliefnadeild Hringrásar hafði frumkvæði að því að koma efnunum í alþjóðlega spilliefnamóttöku, en slík stöð er ekki starfandi hér á landi.

Einar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Hringrásar, sagðist að vonum ánægður með að vera búinn losa sig við jarðveginn.

„Þetta er ánægjulegur áfangi fyrir fyrirtækið. Við ákváðum að koma fram af ábyrgð og losa okkur við þessi efni þar sem þetta tók mikið pláss og augljóslega varð að koma efninu í spilliefnamóttöku,“ sagði Einar.

Starfsvæði Hringrásar við Sundahöfn hefur verið endurnýjað mikið og verður það opnað formlega innan skamms.

„Svæðið hefur verið endurnýjað og nútímavætt. Við erum komin með fullkominn olíutæmingarbúnað fyrir bíla sem á eftir að breyta miklu auk snyrtilegrar aðstöðu,“ sagði Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×