Innlent

Mörg bíða frekari greiningar

Börn að leik. Tveggja mánaða bið er eftir sálfræðiþjónustu á leikskólum í Kópavogi.
Börn að leik. Tveggja mánaða bið er eftir sálfræðiþjónustu á leikskólum í Kópavogi.

Biðtími eftir sálfræðiþjónustu grunnskóla í Kópavogi er aðeins 1-2 vikur samkvæmt upplýsingum frá Tómasi Jónssyni, forstöðumanni sérfræðiþjónustu grunnskóla í Kópavogi. Til samanburðar má geta þess að biðtími eftir sálfræðiþjónustu í Reykjavík er mun lengri og getur skipt mánuðum.

Bið eftir sálfræðiþjónustu barna á leikskólaaldri í Kópavogi er um tveir mánuðir að sögn Önnu Karenar Ásgeirsdóttur sérkennslufulltrúa og alls bíða 24 börn eftir þjónustu sálfræðinga.

„Boðið er upp á stoðþjónustu innan leikskólanna fyrir þau börn sem bíða og þar veita iðjuþjálfar og talmeinafræðingar sérfræðiþjónustu.“

Anna Karen segir algengustu ástæðu greiningar grun um seinkaðan mál- eða vitsmunaþroska. „Biðlistar hjá okkur eru ekki það langir að óánægjuraddir heyrist en það er ákveðið áhyggjuefni að sum barnanna bíða áframhaldandi þjónustu í kjölfar greininga. Sum bíða þjónustu stofnana eins og Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins en þar getur biðtíminn farið yfir ár.“

Það er tilfinning Önnu Karenar að fleiri börn fari í gegnum sálfræðigreiningar nú en áður og til að mæta þessum nýja veruleika hefur þjónusta inni á leikskólum verið aukin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×